11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3048 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

308. mál, ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mun leitast við að svara fsp. á þskj. 573 frá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur.

1. spurning: „Hve margir hafa leitað til ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar ríkisins eftir að hún var opnuð öðru sinni og óskað eftir viðbótarlánum og annarri fyrirgreiðslu?"

Svar: Ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar ríkisins hafa borist rúmlega 400 umsóknir um lán vegna greiðsluerfiðleika síðan á áramótum er aftur var farið að taka á móti umsóknum um lán. Auk þess hafa um 65 manns leitað til stöðvarinnar eftir ráðleggingum ýmiss konar án þess að vera í greiðsluerfiðleikum.

2. spurning: „Er það fólk, sem nú leitar til þjónustunnar, sama fólkið og fékk viðbótarlán á síðasta ári?" Svar: Um það bil 28% umsókna eru frá fólki sem fékk lán vegna greiðsluerfiðleika árið 1985.

3. spurning: „Hvaða skilyrði setur ráðgjafarþjónustan fyrir viðbótarlánum?"

Svar: Þau skilyrði sem sett eru fyrir veitingu lána vegna greiðsluerfiðleika eru í fyrsta lagi að vandi umsækjanda sé til orðinn vegna fjármögnunar íbúðarhúsnæðis af hóflegri stærð miðað við fjölskyldu hans, í öðru lagi að aðrir lánamöguleikar umsækjanda séu fullkannaðir og nýttir, í þriðja lagi að útreiknuð greiðslubyrði á móti greiðslugetu sýni nauðsyn lánveitingar. Þá útreikninga framkvæma ráðgjafar stöðvarinnar. Nú liggur fyrir húsnæðismálastjórn að móta reglur um hvernig þeir geta orðið lánshæfir sem ekki hafa getað lokið nauðsynlegum framkvæmdum við íbúðir sínar án þess að vera í miklum greiðsluerfiðleikum.

4. spurning: „Hvað er gert fyrir það fólk sem ekki fullnægir skilyrðum og ekki getur staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum?"

Svar: Þeim umsækjendum, sem hafa alls enga möguleika á að standa undir skuldbindingum, er bent á þær leiðir sem ráðgjafar koma auga á. Þar er helst um að ræða þá sem hafa farið út í stærri fjárfestingar en tekjumöguleikar þeirra gefa nokkurt tilefni til. Þeim umsækjendum er bent á að selja eða skipta um íbúð. Þeir umsækjendur sem hins vegar hafa það lágar tekjur að þær hrökkva ekki einu sinni fyrir ódýrustu fjárfestingum eru afgreiddir mjög einstaklingsbundið. T.d. hafa margir fengið meðmæli með úthlutun verkamannabústaða og fengið slíkar íbúðir. Öðrum hefur

verið veitt eins mikil lánafyrirgreiðsla og frekast hefur verið unnt. Þeim sem hefur verið veitt lán, en hafa ekki getað útvegað veð, hvorki í eigin íbúð né annarri, hefur verið boðið upp á að útvega ábyrgðarmann og fengið lán þannig. Ráðgjafar hafa leitast við að fá frest á uppboðum húseigna þeirra sem til stöðvarinnar hafa leitað ef þörf hefur verið á. Á meðan viðkomandi umsóknir hafa verið í skoðun hefur flestum verið forðað frá uppboði.

„5. Er vitað hve margir hafa misst húsnæði sitt á síðustu misserum?"

Svar: Ráðgjafarstöðin hefur ekki fylgst með fjölda þeirra íbúða sem seldar hafa verið á nauðungaruppboðum. Þó er vitað að 26 íbúðir voru seldar á nauðungaruppboði í Reykjavík árið 1985 og 27 íbúðir á Suðurnesjum, að sögn borgarfógetans í Reykjavík og bæjarfógetans í Keflavík. Á þessum stöðum hefur langmest verið um slíkar sölur að ræða.