30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

16. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég er orðinn svo vanur þessum fullyrðingum frá sumum hv. þm. eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. að ég sé ekki ástæðu til að kippast við þó að þær séu endurteknar hér í ræðustól.

Í sambandi við þetta mál vil ég aðeins endurtaka það sem ég sagði hér í fyrri tölu minni að ég tel að sparnaður í bankakerfinu okkar, sem miðar að því að auðvelda fólki síðar að eignast húsnæði, sé af því góða og það eigi að efla það, það eigi ekki að túlka það þröngt í löggjöf og því þurfi að laga þá löggjöf ef hún ber það með sér að takmarka slíkan sparnað og að því er verið að vinna.

Í sambandi við fsp. hv. 4. þm. Norðurl. e., þar sem hann vildi krefja mig um dagsetningar í sambandi við frv., vil ég rifja það upp sem hann kom raunar sjálfur aðeins inn á. Það var samkomulag sem var birt á s.l. ári í lok þingsins vorið 1984 milli stjórnarflokkanna um að setja löggjöf um búseturétt og leigukauparétt í sambandi við íbúðarhúsnæði. Að því var unnið. Hins vegar náðist ekki samkomulag um að leggja það frv. fram á síðasta þingi. Eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. sjálfsagt veit eru stjfrv. í samsteypustjórn með því formi, eins og allir hv. alþm. vita, að samkomulag þarf að nást um málið í ríkisstjórn og viðkomandi þingflokkum áður en hægt er að leggja slík mál fyrir Alþingi sem stjfrv. Þetta vita menn í stórum dráttum og í deilumálum er þetta staðreynd sem ekki verður gengið fram hjá því að annar stjórnarflokkurinn getur haft neitunarvald í slíkum málum.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan. Það er verið að vinna áfram að þessu máli og ég geri ráð fyrir því að fljótlega verði upplýst hvort hægt verður að leggja slíkt mál fram aftur sem stjfrv. Það verður ekki langt að bíða eftir úrslitum um það. Það er það eina sem ég get sagt hv. þm. á þessari stundu.