17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

270. mál, friðarár Sameinuðu þjóðanna 1986

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. 1. spurningin er: „Hefur ríkisstj. skipað undirbúningsnefnd vegna friðarárs Sameinuðu þjóðanna 1986?" Svarið við þessu er játandi, en þó með þessari skýringu:

Á fundi ríkisstj. þann 23. jan. s.l. var samþykkt tillaga utanrrh. þess efnis að Félag Sameinuðu þjóðanna yrði beðið að skipuleggja dagskrá í tilefni friðarárs Sameinuðu þjóðanna í samráði við utanrrn. og að höfðu samráði við þau fjöldamörgu samtök sem tengjast þessu friðarátaki. Í grg. utanrrh., sem lögð var fram á þeim fundi, kemur fram að tveggja kosta hafi verið völ og þeir báðir kannaðir. Annars vegar að fela Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi að hafa veg og vanda af skipulagningu með stuðningi stjórnvalda og hins vegar að skipa sérstaka nefnd til að samræma aðgerðir friðarhópa og annast sameiginlega dagskrá þeirra.

Stofnun íslenskrar nefndar til að hafa umsjón með friðarárinu var talin hafa þann kost í för með sér að stjórnvöld gætu frá byrjun til enda haft hönd í bagga með hvernig staðið yrði að því að nota tækifærið til að kynna almenningi ýmsar hliðar íslenskra utanríkismála. Ókostirnir voru einkum taldir tveir:

1. Í ljósi ótölulegs fjölda hópa sem áhuga hafa á friðarárinu væri vandi að sjá hverja skipa ætti í slíka nefnd. Auk hópa sem beint tengjast friðar- og öryggismálum, svo sem Samtök um vestræna samvinnu, Friðarhreyfing kvenna og Samtök lækna gegn kjarnorkuvá, svo að dæmi séu tekin, hafa trúarfélög, æskulýðssamtök, verkalýðsfélög og góðgerðarstofnanir lýst áhuga á friðarárinu. Gæti reynst býsna erfitt að sameina alla þessa hópa og gera öllum til hæfis.

2. Friðarmálin eru í eðli sínu pólitísk og því talin hætta á að ákveðnir hópar reyni að beita friðarárinu fyrir sig í ýmiss konar áróðurstilgangi. Óttast var að stofnun opinberrar nefndar kynni að leiða til þess að stjórnvöld yrðu miðdepill pólitískra sviptivinda.

Niðurstaðan varð því sú að leita til Félags Sameinuðu þjóðanna, enda er það sá aðili sem hvað helst hefur kynnt starfsemi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Var þetta ekki síst gert með hliðsjón af þeirri áherslu sem lögð er á starfsemi Sameinuðu þjóðanna sjálfra í yfirlýsingu friðarársins. Í því skyni þarf að aðstoða félagið með fjárveitingu og er gert ráð fyrir því.

„2. Hvaða áætlanir hefur ríkisstj. gert í tilefni friðarársins 1986?"

Það er rétt að taka fram, eins og kom fram í því sem ég las áðan, að að sjálfsögðu er stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna ætlað að gera um þetta nánari tillögur og er það með þær í undirbúningi. Þó var bent á ýmis atriði. Eins og ég sagði áðan er reyndar ákveðið að veitt verði fé úr ríkissjóði til að kosta þá starfsemi sem Félag Sameinuðu þjóðanna gerir tillögu um og samþykkt verður. En eftirfarandi atriði voru nefnd:

Hátíðasamkoma í Þjóðleikhúsinu einhvern tíma á tímabilinu 24. okt., sem er dagur Sameinuðu þjóðanna, til 19. nóv., sem er 40 ára afmæli aðildar Íslands að Sameinuðu þjóðunum.

Í öðru lagi: Ráðstefna í Reykjavík um t.d. þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu friðarsamstarfi og um ófriðarsvæði í heiminum.

Kynningarbæklingi yrði dreift með ýmiss konar efni sem að sjálfsögðu er ekki frá gengið á þessari stundu, en þó er gert ráð fyrir að slíkt efni verði látið í fé af Sameinuðu þjóðunum í tilefni friðarársins.

Þá er nefnt að kæmi til greina að gefa út frímerki á vegum Póst- og símamálastofnunar eða mynt sem Seðlabankinn sæi um.

Loks, sem er ekki minnst um vert, yrði kynning í fjölmiðlum víðtæk um markmið friðarársins og hefur verið rætt við einstaka fjölmiðla eins og Ríkisútvarpið og kannað hvort þeir hefðu áhuga fyrir viðtölum og umræðuþáttum um efnið. Ég held ég megi segja að sá áhugi er fyrir hendi.

Ég get getið þess til upplýsinga að stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna hefur hafið undirbúning að þessu. Að vísu náðist ekki í formann félagsins, sem er erlendis, en í varaformann, Ásgeir Pétursson bæjarfógeta. Upplýst var að undirbúningur er m.a. hafinn með því að framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn, Ragnar Ólafsson, og félagið hefur hafið að kynna sér hvað ætlunin er að gera á Norðurlöndum í þessu sambandi. Félagið hefur á . fyrri árum gefið út ýmsar upplýsingar um Sameinuðu þjóðirnar og beitt sér fyrir fundum um þær eins og menn þekkja. Félaginu hefur jafnframt verið falið að gera ítarlega starfsáætlun. Sú starfsáætlun er ekki komin í hendur ríkisstjórnar, en gert ráð fyrir því að það geti orðið mjög fljótlega.

Ég vil leggja áherslu á í þessu sambandi að gert er ráð fyrir því að allir þeir aðilar sem áhuga hafa á friðarárinu, og ég veit að þeir eru margir, hafi aðgang að þessari starfsemi og er gert ráð fyrir því að stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna verði til viðtals og taki við hugmyndum og hafi samráð við slíka aðila um þessa framkvæmd.