17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

298. mál, erlend leiguskip

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Svo sem alkunna er misstu nokkrir tugir sjómanna og skipstjórnarmanna vinnuna þegar fyrirtækið Hafskip hf. varð gjaldþrota. Ýmsir þeirra fengu vinnu við það að Eimskipafélagið yfirtók leifar Hafskips, en það voru ekki nærri því allir. Margir þeirra fengu enga vinnu og alls ekki vinnu þar sem þeirra menntun og reynsla nýtist. Allmargir þessara manna ganga enn atvinnulausir.

Þegar þessi mál voru á döfinni var það held ég að frumkvæði hæstv. félmrh. að fram kom tillaga í ríkisstj. að það skyldi vera meginregla í samningum um töku erlendra leiguskipa til siglinga hingað og héðan að það væri heimilt að manna skipin með íslenskri áhöfn. Mér býður í grun að á þessu hafi orðið nokkur misbrestur, framkvæmdin hafi ekki orðið sú sem ætlast var til. Því hef ég leyft mér á þskj. 546 að bera fram fsp. til viðskrh. um erlend leiguskip. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hve mörg erlend leiguskip hafa verið í förum að og frá Íslandi á vegum íslenskra aðila undanfarna tvo mánuði?"