17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3168 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

299. mál, byggðanefnd þingflokkanna

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að frv. það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson leggur fram er ekki lagt fram í nafni Framsfl. (KP: Er það alveg öruggt?) Það er alveg öruggt, hv. þm., alveg öruggt. Ég vísa til þess sem hann hefur sjálfur sagt opinberlega um það mál.

Hér er kominn formaður þingflokks framsóknarmanna sem getur rætt það nánar af hverju hefur ekki verið svarað skriflega. Ég sagði áðan að þetta mál hefði verið rætt í flokknum og ég hygg að hann, eins og ég, treysti svo fullkomlega okkar fulltrúa í nefndinni til að bera það þangað að við höfum ekki talið slíkt nauðsynlegt.

Ég vil taka það fram, eins og ég hef alltaf sagt, að ég hef ekki litið á það sem mitt verkefni að reka þessa nefnd áfram. Það voru þingflokkarnir sem samþykktu að þessi nefnd yrði skipuð og það er í fyrsta sinn sem ég heyri að hún hafi ekki haldið fund í átta mánuði og það þykir mér illt, ég tek undir það. Ég held að eðlilegt sé að menn sætti sig illa við það og hvet menn til að ræða það við formann nefndarinnar að betur verði unnið.

Um byggðanefndina gömlu vil ég taka fram að ég hef lengi litið svo á að hún hafi lokið störfum með því að koma á fót byggðadeild við Framkvæmdastofnun. Það var hennar verk og var mikið í því unnið og safnað miklum upplýsingum. Ég lýsti því a.m.k. oft yfir að ég teldi að sú byggðadeild sem þar var sett á fót ætti að leysa þau verkefni sem þarna var um að ræða. Það er rétt að ég hef ekki rætt það við hv. nefndarmenn að leggja hana niður en hún var tekin fyrir nokkru út af skrá yfir nefndir á vegum ríkisins. Menn geta flett því þar upp.