17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3173 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

318. mál, endurskoðun laga um fasteignarsölu

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og ég endurtek að ég fagna framkomu þessa frv. til laga um fasteigna- og skipasölu. Ég sé ástæðu til að spyrja hæstv. dómsmrh., af því að það kom ekki sérstaklega fram í svari hans, hvort full samstaða sé um þetta frv. af hálfu stjórnarflokkanna og hvort það megi taka sem venjulegt stjfrv. skv. hefðum og venjum hér á Alþingi eða hvort beri að líta á þetta sem eitt af hinum nýju stjfrv. sem við höfum séð birtast aftur og aftur í tíð þessarar ríkisstj. þar sem hver höndin er uppi á móti annarri í sjálfu stjórnarliðinu. Mér er kunnugt um að það hefur verið nokkur ágreiningur meðal hv. stjórnarliða um það með hvaða hætti ætti að koma böndum yfir fasteignamarkaðinn og ég hygg að samstarfsflokkur hæstv. dómsmrh. hafi verið nokkuð taumþungur í þeim efnum að setja skýr og afdráttarlaus ákvæði um réttindi og skyldur þeirra sem stunda fasteignasölu. Ég endurtek því spurningu mína til hæstv. dómsmrh.: Er full samstaða meðal stjórnarflokkanna um þetta frv. og er þess þá að vænta að það verði keyrt í gegn og gert að lögum á yfirstandandi þingi?