16.10.1985
Sameinað þing: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Þessi tilkynning um breytingar á ríkisstjórninni, sem er til umræðu hér í dag, á sér langan aðdraganda og er í sjálfu sér skrumskæling á því hvert hlutverk hennar er. Þessi tilkynning á sjálfsagt að virka sem tæki í baráttunni við að láta líta svo út sem formaður Sjálfstfl. sé valdamikill. Það út af fyrir sig er fullgild ástæða fyrir því að bera fram gagnrýni á fyrirkomulagið. Þessi tilkynning færir manni heim sanninn um, hafi maður nú ekki vitað það fyrr, að þessi tilkynning er bara formsatriði. Það að þetta heitir að vera tilkynning frá forsrn. Hæstv. forsrh. ræður auðvitað alls engu þar um, svo merkilegt sem það annars kann nú að virðast.

Auðvitað ætti þetta að vera þannig að forsrh. væri stjórnandi og forsvarsmaður ríkisstjórnarinnar. Það er hann sem kallaður er til ábyrgðar fyrir gerðir ráðherranna. Það er auðvitað hann sem ber ábyrgðina og þess vegna ætti þetta að vera þannig að hann fengi til liðs við sig þá sem hæfastir geta talist til þess að gegna þessum embættum hverju sinni, en ekki að það séu innanbúðar vandamál Sjálfstfl. sem ráða til um það hverjir gegna einbættum.

Hæstv. forsrh. verður í þessu tilviki eins og skipstjóri sem ætlast er til að sé stjórnandi skútunnar en ræður þó engu um það hvað áhöfnin gerir. Þegar upp er staðið er það hæstv. forsrh. sem kallaður verður til ábyrgðar þrátt fyrir að hann ráði einungis og sé í reynd aðeins forsvarsmaður fyrir u.þ.b. 40% af ríkisstjórninni, þ.e. þeim ráðherrum sem tilheyra þingflokki Framsfl.

Það eru hins vegar innanbúðarvandamál í Sjálfstfl. sem ráða lögum og lofum í þessari ríkisstjórn. Þar snýst orðið allt um leik, samkvæmisleik, sem tíðkaður var í barnaafmælum hér í eina tíð, áður en þau urðu vídeóvædd. Þá var raðað upp stólum, einum færri en þátttakendur í leiknum voru, því næst spilað lag eða sungið meðan þátttakendurnir í leiknum gengu hringinn í kringum stólana. Allt í einu var hætt að spila eða syngja og þátttakendurnir í leiknum kepptust við að ná í stól. Að sjálfsögðu varð einn út undan. Þess vegna tek ég þessa líkingu að það sama á sér stað með þátttakendur í ráðherrastólaleik Sjálfstfl. Þessi leikur er það sem ræður lögum og lofum í ríkisstjórninni þessa dagana, en hæstv. forsrh. ræður þar hins vegar ekkí nema yfir sínum liðsmönnum. Skoðanakannanir sýna að flokkur hæstv. forsrh. á sífellt meira í vök að verjast þannig að hann verður að láta sig hafa það þó titillinn forsrh. sé einungis nafnið tómt. Allt er betra en ekkert. Á þeim bæ er um að gera að leggja allt undir sem orðið getur til þess að forða kosningum í bráð.

Þorsteini Pálssyni var greinilega mikið í mun að taka fjmrn. af samflokksmanni sínum áður en hann yrði flokknum dýrkeyptari en orðið var í því embætti. En ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið, því ekki er að vita nema hann geti orðið enn þá dýrkeyptari í iðnrn., er hann tekur til við að fremja axarsköft sín þar. Þessi aðgerð er auðvitað ekkert annað en yfirlýsing frá Sjálfstfl. um vantraust á hendur fyrrv. fjmrh.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast þessar umræður í heild lýsa best skilningsleysi þessarar ríkisstjórnar á því hvernig þjóðin hefur það í þessu landi. Ef ríkisstjórnin hefði lagt þvílíkt ofurkapp á að bæta lífskjör hennar og aðstæður sem hún hefur nú lagt ofurkapp á að bæta við ráðherrum og búa þar með til aðstæður fyrir umræður af þessum toga, þá værum við líklega komin mjög vel á veg. Ef það var ætlunin með þessum umræðum að hér komi upp hver þingmaðurinn af öðrum til þess að óska ríkisstj. til hamingju og bera fram heillaóskir vegna nýju andlitslyftingarinnar sem orðið hefur á henni með tilkomu nýs fjmrh. í ríkisstj., þá get ég út af fyrir sig gert það, óskað þessari ríkisstjórn til hamingju með andlitslyftinguna. En ég geri það þá með því fororði að breytingunni hafi verið ætlað það markmið að verða þjóðinni til heilla og til þess að bæta aðstæður og lífskjör hennar, ólíkt því sem raunin hefur verið, því miður, áður en andlitslyftingin varð. Ef svo ólíklega vill til að þetta sé markmiðið, þá ber að óska henni allra heilla og fagna. Ef ekki, sem ég hef því miður meiri trú á að verði, þá er verr farið af stað en heima setið.