24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3258 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

312. mál, verkfræðingar

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég tel tvímælalaust að það sé full ástæða til að samþykkja þetta frv., enda aðili að nál.

Ég vildi skýra að nokkru leyti hvers vegna ég kemst að þeirri niðurstöðu. Það er fyrst og fremst og aðallega vegna þess að réttindamál hafa snúist einhvern veginn þannig í höndunum á okkur hér á Íslandi að stéttir sem njóta ekki lögverndunar starfsheitis eru í raun og veru ekki til í augum opinberra yfirvalda, ekki til sem viðskiptaaðilar eða ábyrgðaraðilar fyrir sínum verkum. Þetta er þrátt fyrir að menn hafi tvímælalaust gild próf frá æðstu menntastofnunum víðs vegar um heim og skorti ekkert á í þeim efnum. Starfsstétt eins og sú sem hér um ræðir sinnir mjög víðtækum og viðamiklum störfum við það að ganga frá og innrétta húsnæði og starf þessara þjónustuaðila er ekki hvað síst fyrir og á vegum hins opinbera. Um hendur þessara manna fara miklir fjármunir með ýmsum hætti og á herðum þeirra hvílir mjög mikil ábyrgð. Samt sem áður líta yfirvöld, þau sem t.d. eiga að gæta öryggis og annarra slíkra hluta í tengslum við byggingar, þannig á að þessi starfsstétt sé ekki til. Það þýðir aftur á móti að mjög mikið af vinnu þessa þjónustufólks er unnið án þess að heimildir fyrir henni liggi fyrir á réttum stöðum sem er aftur á móti gífurlega mikilvægt í sambandi við, þó ekki nema eitt sé nefnt, t.d. brunavarnir og eldvarnaeftirlit.

Svo að ég skýri aðeins betur hvað ég á við er ég að tala um að þegar arkitekt er búinn að teikna hús eða annar sem heimild hefur til þess af hálfu byggingaryfirvalda, það hefur verið samþykkt og því hefur verið upp komið að því byggingarstigi sem við köllum „tilbúið undir tréverk“, þá kemur oft innanhússhönnuður að verkinu og gengur frá endanlega. Hann er sér fullkomlega meðvitandi um allar gildandi reglugerðir vegna brunavarna og annarra slíkra hluta og ég treysti því að þeir fari ávallt eftir því, en vinna þessa manns liggur ekki fyrir hendi sem gögn hjá viðkomandi yfirvaldi, þá á ég við byggingaryfirvöld, einfaldlega vegna þess að viðkomandi yfirvald lítur þannig á málin að þessi atvinnustétt sé ekki til. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að styðja samþykkt þessa frv.

Aftur á móti get ég tekið hjartanlega undir með hv. 6. landsk. þm. að ég tel tvímælalaust komið að því að stjórnvöld staldri við og eyði einhverjum tíma í að skoða öll þessi sérréttindamál með tilliti til tilgangs og markmiða. Ég fæ ekki betur séð en það mætti að ósekju aflétta stórum hluta þessara sérréttinda, en þá yrði það að gerast þannig að jafnræði ríkti með öllum sem skyldleika eiga í starfi.