24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3267 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

339. mál, sjóðir atvinnuveganna

Egill Jónsson:

Virðulegur forseti. Það er nú að sjálfsögðu ekki að ófyrirsynju þó að nokkur umræða verði þegar mál af þessu tagi eru lögð fram á Alþingi, frv. til l. um sjóði atvinnuveganna, og sérstaklega er ástæða að hyggja að því hverjar breytingar verða í sambandi við atvinnuvegina og þá sjóði sem þeim eru tengdir.

Um þessar mundir hefur átt sér stað æðimikil breyting í landbúnaði, það hygg ég að mönnum sé nú fullkomlega ljóst. Og það fer ekki hjá því að sú breyting gangi að einhverju leyti til verkefna í sjóðakerfi landbúnaðarins, Stofnlánadeild og Framleiðnisjóði eins og nú er. Ég held, án þess að ég ætli að fara út í þá umræðu, að Stofnlánadeildin hafi sinnt sínu hlutverki sem lánasjóður til landbúnaðarins vel, í rauninni frá stofnun deildarinnar þótt að sjálfsögðu hafi stundum verið erfiðleikar í rekstri hennar, m.a. vegna þess að hún lánaði út óverðtryggð lán á sama tíma og henni var gert að taka verðtryggð lán til að fjármagna sín útlán. En þar hefur að sjálfsögðu orðið breyting á þannig að þau útgjöld hafa verið færð yfir í landbúnaðinn. Þegar hv. 2. þm. Austurl. rifjaði það upp áðan að núv. forsrh. og þáv. landbrh. árið 1979 hafi með störfum sínum þá mjög treyst grundvöll að heilbrigðum rekstri Stofnlánadeildarinnar, þá var það gert með þeim hætti að öll lán voru sett undir verðtryggingu. Þar með hefur kostnaðurinn af verðtryggðum lántökum verið færður út í landbúnaðinn og er sjálfsagt ekki umdeilanlegt. En þetta voru hins vegar þau bjargráð sem voru gerð árið 1979 og hafa reyndar reynst Stofnlánadeildinni haldgóð.

Ég get með sama hætti tekið undir það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér áðan að ég fæ ekki betur séð en að útlán deildarinnar hafi verið eðlileg miðað við áherslur á hverjum tíma. Menn verða að athuga að útlán til hinna hefðbundnu atvinnuvega eru langt undir þeim mörkum sem eðlilegt er miðað við eðlilega endurnýjun. Það er annað mál að það er réttur kostur að draga úr þeim fjárveitingum, ekki síst vegna bændanna sjálfra, en ef við tökum t.d. 4-5 ára tímabil miðað við fjósbyggingar, þá þarf meira en hálfa öld til þess að endurnýja þær byggingar. Miðað við næsta 5 ára tímabil á undan þarf hins vegar 25 ár, 1/4 hluta úr öld og það er það tímabil sem þessar framkvæmdir eru afskrifaðar á. Þannig að við erum nú undir þeim mörkum sem eðlilegt verður að teljast í sambandi við viðhald í hefðbundnum landbúnaðarbyggingum og til þess verða menn að sjálfsögðu að horfa þegar litið er til framtíðarinnar.

Það er ýmislegt fleira sem rifjast upp og skal ég þá strax snúa mér að því sem ég er í langsamlega mestum vafa um í sambandi við Búnaðarsjóðinn, en það er 11. gr. þar sem kveðið er á um að Framleiðnisjóðurinn skuli ganga undir Búnaðarsjóðinn. Ég hef um þetta miklar efasemdir. Ástæðan er sú að með búvörulögunum sem voru afgreidd í fyrravor var tekin ákvörðun um sérstakt tímabil í íslenskum landbúnaði til 5 ára, tímabil endurskipulagningar og búháttabreytingar. Framleiðnisjóðnum hefur verið falið sérstakt hlutverk í þeim efnum. Átt hefur sér stað mikil umfjöllun og ég er sannfærður um að þar eru málin farin að skýrast fyrir mönnum með það í huga hvað muni eiga að ganga fram og með hvaða hætti eigi að taka á málum þetta umrædda tímabil. Mér er það alveg ljóst að þar þarf að taka margar vandasamar ákvarðanir og að menn eru og verða að sjálfsögðu ekki á eitt sáttir með það. En ég tel það mjög mikilvægt að þeir menn, sem hafa verið þar í forustu og eru farnir að móta þessi verkefni, hafi þau með höndum þessi 5 ár. Þetta er sérstakt þróunarverkefni sem tilheyrir ekki nema að hluta til eðlilegri bankastarfsemi og þar af leiðandi legg ég áherslu á að það sé best komið þar sem það nú er.

Það eru tvö önnur atriði sem ég hef heldur ekki gert að fullu upp við minn huga og það er þá 3. gr. þar sem kveðið er á um stjórn Stofnlánadeildarinnar. Nú er það svo að ýmsir aðrir hafa meiri ráð heldur en einungis þeir sem stjórna stofnunum af þessu tagi. En ég er ekkert viss um að það sé neitt til bóta fyrir Stofnlánadeildina að þrengja pólitísk áhrif í stjórn hennar. Ég er ekkert viss um að það sé af hinu góða. Ég held að það gæti verið alveg eins farsælt að Stofnlánadeild landbúnaðarins sæki sitt traust til sem flestra pólitískra sjónarmiða í þjóðfélaginu og það getur varla gerst með öðrum hætti heldur en að þau eigi einhverja aðild að stjórn hennar.

Síðan er það 14. gr. þar sem kveðið er á um tekjur Stofnlánadeildarinnar. Út frá því sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér áðan um afleysingaþjónustuna held ég að ég muni það rétt að sú ákvörðun var tekin til eins árs. Ég held að ég muni það rétt. (Gripið fram í.) Jú, það er tilgreint í lánsfjárlögum að því er mig minnir. Lögin um afleysingaþjónustuna eiga að vera virk þar á eftir. Og að því er sjálfan mig varðar - og ber ég að sjálfsögðu fulla ábyrgð á þeirri ákvörðun eins og aðrir stjórnarþm. - þá hef ég ekki léð samþykki mitt til þessarar ákvörðunar nema til eins árs. Hvort sem það kann að verða endurnýjað eða ekki þá vil ég að þetta liggi alveg ljóst fyrir.

Ég get ekki leynt þeirri skoðun minni að ég er andvígur því að framleiðendagjaldið eigi að vera áfram við lýði. Fyrir því eru einfaldlega þau rök að þegar búið er að verðtryggja útlán Stofnlánadeildarinnar til bænda þá er að sjálfsögðu óeðlilegt að þeir greiði líka til hennar launagjald. Ég vil vekja athygli á því að þetta gjald hefur hækkað mikið á síðustu árum. Það má vel vera að þær breytingar séu að verða á núna að það fari að lækka aftur. Sem betur fer bendir ýmislegt til þess. En launahlutur bóndans, sem þetta gjald er allt saman tekið af, hefur farið minnkandi í búvöruverðinu og þar af leiðandi hefur þetta gjald orðið tilfinnanlegra vegna þess að það er allt saman greitt af launaliðnum en miðað við brúttóverð framleiðslunnar.

Ég hef áður flutt um það frv. á Alþingi að fella þetta gjald niður og ég hef satt að segja haft það til athugunar að endurnýja flutning á því frv. Það er ekki þar fyrir að í frv. um sjóði atvinnuveganna er ekki farið inn á nýjar brautir í þessum efnum og þar af leiðandi út af fyrir sig ekki sérstök ástæða til þess að gera þetta atriði að miklu máli í sambandi við þennan frumvarpsflutning. - Af því að það er nú annar þingfundur hér í hliðarsal, virðulegi forseti, þá má vel vera að það sé erfitt að fylgjast með máli mínu, en a.m.k. mættu gjarnan berast þangað inn þau fáu orð sem ég ætla að segja hér á eftir. - Þá gefst nú reyndar síðar líka betra tóm til þess að tala um annað frv. sem farið er að sveima um í sambandi við Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það er búið að leggja það fram í Nd. Alþingis og mér sýnist að það sé í því fólgið að færa veðdeildina yfir í Stofnlánadeildina. Ég held að mjög mikil ástæða sé til þess að athuga þetta frv. vel því að Búnaðarbankinn er ábyrgur fyrir veðdeildinni sinni. Það skulu menn athuga.

Þó að það sé að sjálfsögðu augljós tilgangur að létta á bændum með lengri lánum vegna þeirra skuldbreytinga sem hafa átt sér stað í landbúnaði og hafa verið fluttar inn í Stofnlánadeildina, þá sýnist mér að með mjög ótvíræðum hætti séu teknar af veðdeildinni og Búnaðarbankanum þær fjárhagsskuldbindingar sem veðdeildin er í vegna þessara lána. Og eftir að þau hafa verið færð inn í Stofnlánadeildina, m.a. með röksemd um að þar sé framleiðendagjald sem hægt sé að grípa til til þess að beita fyrir sér í rekstrinum, þá vil ég nú satt að segja skoða þau mál nokkuð nákvæmlega áður en ég gef á þau grænt ljós hér á Alþingi.