25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3317 í B-deild Alþingistíðinda. (2926)

283. mál, sláturhús á Fagurhólsmýri

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég get vissulega verið sammála hv. síðasta ræðumanni um það að mikilvægt sé að halda uppi sem allra fjölbreyttastri atvinnustarfsemi í sveitum landsins.

En mér er ómögulegt að komast hjá því að vekja athygli bæði hans og annarra hv. alþm. á þeirri staðreynd að áður en rekstur og uppbygging sláturhúss í Öræfum getur gengið inn í umræðuna sem verkefni á vegum landbrn. eða stjórnvalda verður að sjálfsögðu sláturleyfishafinn, sem er Kaupfélag Austur-Skaftfellinga, að gera það upp við sig hvort hann ætlar að reka þar sláturhús eða ekki. Um það snýst málið í dag, hvort sláturleyfishafinn ætlar að reka sláturhús þar eða ekki. Þegar niðurstaða fæst um það gæti vel komið til greina að annar aðili eða aðrir aðilar vildu kannske byggja upp og reka sláturhús á Fagurhólsmýri. Um það snýst málið núna. Það verður ekki afgreitt í sambandi við fsp. hér á hinu virðulega Alþingi heldur það hvort sláturleyfishafinn ætlar að reka sláturhús á Fagurhólsmýri eða ekki.