25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3325 í B-deild Alþingistíðinda. (2944)

335. mál, byggingarkostnaður nýs útvarpshúss

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Hér er um þýðingarmikið mál að ræða og æskilegt væri að lokið yrði sem fyrst við bygginguna svo að öll starfsemi hljóðvarps og sjónvarps geti sem fyrst flutt í húsið. Þess vegna hvet ég til þess að hraðað verði byggingu útvarpshússins svo sem kostur er þó að mér sé ljóst að hérna er um háar upphæðir að ræða. Þá upplýsti hæstv. ráðh. að á árunum 1987 og 1988 væri fyrirhugað að ljúka byggingunni svo að ekki er orðið langt eftir í lok byggingarinnar. En þar sem þetta hefur verið nokkuð lengi í byggingu er mjög æskilegt að framkvæmdum sé hægt að ljúka sem fyrst og starfsemin geti flutt öll í húsið sem fyrst.