01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3359 í B-deild Alþingistíðinda. (2994)

351. mál, geðheilbrigðismál

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. sú sem hér er borin fram er orðin gamall kunningi í sölum Alþingis. Þetta er í þriðja sinn sem spurt er um þetta mál í vetur og jafnan hefur verið spurt um þetta á hverju þingi frá því árið 1981, síðla árs má ég segja, en á því ári var þessi nefnd skipuð.

Þessari nefnd, sem falið var viðamikið verkefni, var settur tímafrestur í upphafi og átti skv. ályktun Alþingis þá að skila áliti nokkrum mánuðum síðar. Ráðherrar hafa framlengt frestinn mjög oft eins og sú staðreynd sýnir að þetta er orðin gömul nefnd og mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því er hún tók til starfa. Sumt af þeim vandamálum sem þá voru mjög knýjandi hafa verið leyst að verulegu leyti, en önnur bíða enn frekari úrlausnar.

Nefnd þessari, sem hér er um rætt, var ætlað að skila áliti í haust skv. ákvörðun fyrirrennara míns. Sá frestur var framlengdur. Svo að ég reki aðeins þann þátt starfa hennar sem fram hefur farið eftir að ég tók við ráðherraembætti var frestur settur um skil á tillögum nefndarinnar í lok ársins. Fresturinn var skv. ósk nefndarinnar framlengdur fram í febrúarmánuð og hefur nefndinni verið skrifað bréf þess efnis að ráðuneytið líti svo á að hún hafi lokið störfum. Endanleg skil á gögnum hafa ekki farið fram, en munu vafalaust fara fram á næstu dögum. Fundur var haldinn í ráðuneytinu í síðustu viku með formanni nefndarinnar, ritara og einum nefndarmanni enn um störf hennar og skil á greinargerðum hennar og gögnum.

Það er auðvitað svo að upp koma bæði ný vandamál í tímans rás á þessu flókna sviði og eins er það að ýmsir þættir eru þess eðlis að enn nánar mætti úttæra þá. En einhvern tíma verður öllum nefndarstörfum að ljúka og því er ætlunin að setja punkt aftan við þetta starf núna og hefur það raunar verið gert.

Nefndin hefur skilað drögum að greinargerð, áfangaskýrslum um ýmsa þá þætti sem hv. þm. nefndi áðan, og það sem nefndin hefur kynnt að hún muni afhenda með gögnum sínum næstu daga er þáttur um geðheilbrigðismál aldraðra. Einmitt þau mál tel ég vera þess eðlis að þeim þurfi að gefa enn meiri gaum en hingað til hefur verið gert á þann veg að í öldrunarþjónustunni þurfi að koma miklu meiri þjónusta við geðsjúk gamalmenni þannig að unnt verði að forða þeim frá þörf á stofnanavist og hjálpa þeim til betri heilsu í ellinni.

Á ráðstefnu um öldrunarmál, sem nýlega var haldin, skýrði ég frá hugmyndum sem Hallgrímur Magnússon geðlæknir hafði unnið fyrir mig og einnig frá því að ég mundi æskja þess að fá frekari greinargerð og úrvinnslu frá honum, en hann tekur einmitt þátt í því að ganga frá þessum þætti í störfum umræddrar nefndar.

Að því er varðar annan þátt sem hv. þm. nefndi sérstaklega að vinna þyrfti betur úr, þ.e. geðheilbrigðismál unglinga, þá hef ég lýst því yfir oftar en einu sinni úr þessum ræðustól í vetur að ákvörðun hefur verið tekin um stofnun unglingageðdeildar í tengslum við geðdeild Barnaspítala Hringsins. Eins og hv. þm., þeim sem eru í fjvn. a.m.k., er kunnugt var notuð heimild sú sem var á fjárlögum í fyrra til að hafa skipti á jörðinni Úlfarsá í Mosfellssveit og húseign við Dalbraut til þess að reka þar litla unglingageðdeild. Ætlunin er að göngudeild taki þar til starfa seint á þessu ári og verður vonandi ætlað til þess fé á fjárlögum að þar verði hægt að taka nokkur rúm fyrir geðsjúka unglinga í notkun á næsta ári.

Ég vil að lokum sérstaklega taka undir þau orð hv. þm. að nauðsynlegt væri að efla sérstaklega geðheilsuvernd, að efla þátt geðverndar bæði á heilsugæslustöðvum og víðar. Ég er þeirrar skoðunar að á því sviði mætti mun betur gera og að því þurfi sérstaklega að gefa gaum á næstu árum.