01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3369 í B-deild Alþingistíðinda. (3013)

355. mál, iðgjöld bifreiðatrygginga

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég tel að menn eigi ekki að fara í launkofa með það að tryggingaeftirlitið er öðrum þræði til þess gert að tryggja það að bætur vegna skaða verði nægjanlega háar. Hitt er annað mál að þær risahækkanir sem áttu sér stað nú í ár koma mönnum mjög í opna skjöldu, sérstaklega eftir nýgerða kjarasamninga.

Eitt er það sem hægt væri að gera til þess að lækka iðgjöld bifreiðatrygginga og það er að lækka eða afnema skatta af þessum iðgjöldum. Ísland mun vera eina ríkið í veröldinni sem setur skatta á þessi iðgjöld og er það með ólíkindum hvaða hugsun liggur þar að baki. Í erindi sem til alþm. hefur borist frá tryggingafræðingi segir, með leyfi forseta:

„Það er beinn skattur á eignatjón, tekjutap og þjáningar. Auk þess er slík skattlagning í flestum tilvikum tvísköttun. Söluskattur er lagður á slysa- og sjúkratryggingar aðrar en samnings- og lögbundnar launþegatryggingar. Hér er verið að skattleggja afleiðingar slysa og sjúkdóma. Söluskattur á ábyrgðartryggingariðgjöld er að hálfu leyti skattur á þjáningar, lýti, röskun á stöðu og högum og vinnutekjutap. Er þetta siðferðilega réttlætanlegt?" spyr maðurinn.

Annað er það sem ég tel ástæðu til að vekja athygli á. Það er að fyrir þinginu hefur legið frv. um umferðarlög. Af þeim sem til þekkja er talið að bætt umferðarmenning muni verða til þess að lækka iðgjöld þessara trygginga mjög mikið. Þetta frv. hefur legið í Ed. í allan vetur og þar hefur ekkert gerst og ekkert verið unnið í þessu máli. Ég furða mig á þeim vinnubrögðum og spyr eftir því hvernig standi á því að svo þýðingarmikið frv. sem umferðarlög eru skuli leikin á þennan hátt sem ég var að ræða um.