02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3402 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í framhaldi af ræðu hæstv. ráðh.

Mér leikur forvitni á að vita hvort ekki verður um fleira en vikur að ræða, steinull eða annan léttan varning sem flytja þarf á milli staða. Það hlýtur að gilda einu hver varan er. Eins vil ég nefna að það eru fleiri en þeir sem flytja vikur sem keppa um markaðsverð á flutningum. Þar má t.d. nefna kartöfluflutninga úr fyrrnefndu kjördæmi. Þar er um fasta flutninga að ræða, mikið magn. Því keppast menn um að halda verðinu niðri. Það kæmi neytendum ekki síður til góða ef þessir flutningar væru ekki hækkaðir úr hófi fram eins og hér er lagt til.

Ég mun bíða róleg eftir því að fá upplýsingar um hvað þessar breytingar kosta, en eins og ég hef áður sagt úr þessum ræðustól er mjög erfitt að gera sér grein fyrir breytingum nema vita nokkurn veginn hvað þær þýða tölulega séð, hvað hér er um mikið magn að ræða og marga bíla. T.d. er yfirgnæfandi meiri hluti flutnings af landsbyggðinni fluttur með bílum sem keyra yfir 45 þús. km á ári og ná þar af leiðandi 50% afslætti. Þetta skiptir mjög miklu máli að mínu mati. Ég held því að ég verði að bíða róleg til 3. umr. til að sjá hvað þessar afsláttarbreytingar allar kosta. En ég endurtek: Ég er ekki sannfærð um að hér sé um mjög mikið réttlætismál að ræða þar sem það eru mjög misjöfn atvinnuskilyrði fyrir vörubílstjóra víðs vegar á landinu.