02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3425 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

368. mál, selveiðar við Ísland

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þriðja þingið í röð er hér lagt fram stjfrv. um selveiðar og voru menn satt að segja hættir að búast við því á þessu þingi, sem er nánast rétt ólokið eins og menn vita, þar sem um þetta mál hafa verið mjög skiptar skoðanir eins og menn hafa heyrt í umræðunum núna. Því hefði mér þótt eðlilegt að það kæmi fram miklu fyrr. Hér hafa ekki verið þær annir allt frá jólaleyfi þm. að ekki hefði átt að gefast góður tími til að fjalla um þetta í nefnd og á þingfundum svo sem vert væri. Ég hlýt að gagnrýna þau vinnubrögð að leggja þetta mál fyrir þingið svo seint.

Mér er ekki fyllilega ljóst á þessari stundu að þær óverulegu breytingar sem gerðar hafa verið dugi til þess að menn nái samkomulagi um afgreiðslu málsins eins og það liggur fyrir. Ég skal ekkert fullyrða um það, en efast um það og enn þá frekar eftir að hafa hlýtt á þær umræður sem hér hafa verið í dag.

Við höfum þegar heyrt t.d. afstöðu hv. 1. þm. Norðurl. v. og get ég tekið undir það, sem hann sagði, að óheppilegt sé að flækja málum undir fleiri en eitt ráðuneyti. Reyndar er mér alltaf jafnóskiljanlegt hvers vegna menn eiga svona erfitt með að vinna saman á milli ráðuneyta, en reynslan hefur margsannað að það gengur afleitlega. Við höfum ótal dæmi um það og efst er mér í huga sú ringulreið sem ríkir í umhverfismálum sem heyra undir flest ef ekki öll ráðuneytin.

Hér er þó ekki um sams konar hlut að ræða heldur eru selveiðar felldar undir yfirumsjón sjútvrn., en því gert að hafa samvinnu við landbrn. og verð ég að játa að ég sé ekki fyllilega tilgang þess né nauðsyn og mætti algjörlega sleppa landbrn. úr 3. gr. Öðru máli gegnir um þá aðila sem taldir eru upp aðrir í 3. gr., en það er sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa samráð við þá. Það skiptir hins vegar öllu máli hvernig því samráði verður hagað og um það hafa eflaust ýmsir sínar efasemdir og vildu láta negla það samráð niður á einhvern hátt.

Ég held að farsælast væri að koma á fót nefnd þeirra aðila sem þar eru taldir upp og sú nefnd væri sjútvrn. til aðstoðar og ráðgjafar um allt sem lýtur að selveiðum. Mér finnst ekki nógu tryggilega frá þessu gengið og skýringar ekki nógu góðar við þessa grein frv.

Mér þótti hv. síðasti ræðumaður nokkuð stórorður um hver áhrif gætu orðið af samþykkt þessa frv. og hvernig selveiðar mundu fara fram við Breiðafjörð ef þær yrðu að lögum. Hér stendur í 6. gr.: „Ráðherra getur sett“. - Raunar skil ég ekki hvers vegna þarf að standa hér „getur sett“ en ekki bara: ráðherra setur reglur um framkvæmd laga þessara. Með leyfi forseta vitna ég aðeins lengra:

„Með reglugerð getur ráðherra m.a. bannað selveiðar á tilteknum svæðum, takmarkað selveiðar við ákveðinn tíma, friðað ákveðnar tegundir sela og ákveðið fjölda þeirra sela er veiða má af einstökum tegundum á ákveðnum svæðum á tilteknu tímabili, sett reglur um leyfilegar veiðiaðferðir og um hlaupvíddir skotvopna er nota má til selveiða“ o.fl. o.fl. sem hér er kveðið á um.

Það gildir auðvitað um þetta eins og fleira að það er framkvæmdin sem skiptir máli og um þetta verður að vera fullt samráð við Náttúruverndarráð og aðra sem um eiga að fjalla. Vil ég leggja áherslu á að allt verði gert til að ekki verði slík óöld sem hv. síðasti ræðumaður sá fyrir sér í þessum efnum.

En mönnum finnst liggja mikið á að afgreiða þetta mál nú og halda hringormavandamálinu mjög á lofti og virðast telja að það Lagist að mun ef þetta frv. verði að lögum, eins og mér heyrðist t.d. á hv. 7. þm. Reykv. Það finnst mér mikil bjartsýni. Menn greinir afskaplega mikið á um orsakir þessa vandamáls og ráð við því. Mörgum spurningum er ósvarað enn, t.d. hvers vegna í ósköpunum enginn hringormur er í fiskinum við Grænland þar sem nóg er þó af selnum og hvers vegna ekki varð samsvarandi aukning á hringormi í fiski við Bretland þegar selastofnar margfölduðust þar. Mig minnir að það hafi verið við umræðuna um þetta mál fyrir tveimur árum sem fullyrt var að hringormur væri ekki í fiskinum við Grænland vegna þess að sjórinn þar er svo kaldur. Hins vegar kom engin skýring á þróuninni við Bretland. Þannig eru enn í dag mjög skiptar skoðanir um þessa hluti og varlegt að fullyrða mikið um það. Þetta hefur alls ekki verið rannsakað nóg. Það þarf að auka rannsóknir á orsökum þessa vandamáls, en ég held það mikla bjartsýni að lausnina á hringormavandanum sé að finna í þessu frv.

Það er rétt að minna á að töluverðar rannsóknir og tilraunir eru í gangi sem snerta þetta mikla vandamál sem síst skal lítið úr gera. A.m.k. þrjú verkefni fengu fjárveitingar úr 50 millj. kr. þróunarsjóðnum á síðasta ári sem snerta hringormavandann. Menn eru að reyna að þróa aðferðir til að finna orminn og tína hann úr fiskinum á öruggan og fljótvirkan hátt. Þetta tilraunastarf þarf að efla og styrkja að miklum mun. Það mundi áreiðanlega spara fleiri tugmilljónir í fiskvinnslunni en þótt skikkan kæmist á selveiðar.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri, en legg áherslu á að þetta mál fái rækilega umfjöllun um leið og ég gagnrýni hversu seint það er komið fram sem tæplega verður til þess að greiða fyrir samkomulagi um það.