07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (3103)

366. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. á þskj. 661, 366, máli þingsins. Það er frv. til l. um breytingu á lögum nr. 54 frá 6. apríl 1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Frv. þetta er flutt að eindreginni ósk Sambands ísl. sveitarfélaga eftir ósk almennra funda sveitarfélaga. Það sem frv. fjallar fyrst og fremst um er það að breyta lögunum þannig að dráttarvextir skuli vera reiknaðir af vanskilum eftir ákveðnum reglum sem þar um fjalla og kemur fram í 1. og einu grein frv.

Skv. 3. mgr. 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga frá 1971 er stofnuninni heimilt, þegar vanskil verða á meðlagsgreiðslum að reikna og innheimta 7% vexti, þ.e. ársvexti, af vanskilum frá gjalddaga til greiðsludags. Vegna verðbólgu undanfarinna ára og upptöku verðtryggingarákvæða og breytinga á vaxtakjörum er þetta ákvæði löngu orðið úrelt og hefur raunar orðið til þess að vanskil við Innheimtustofnunina hafa vaxið gífurlega.

Ég vil gefa þá skýringu með þessu, hversu mikil áhersla á þetta er lögð, að á s.l. ári var gerð mikil breyting á Innheimtustofnun sveitarfélaga að því leyti til að það sem áður var hægt að dreifa á 1-2 ár í skilum við Tryggingastofnun ríkisins er skv. nýjum ákvæðum gert skylt að endurgreiða Tryggingastofnuninni sama árið og þessi gjöld verða til. Þetta hefur þær afleiðingar að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verður að greiða miklu hærri upphæðir en var á undanförnum árum og bitnar það beint og óbeint á tekjustofnum sveitarfélaga, en sveitarfélögin eru eins og allir vita skyldug til að sjá um þessi skil af sínum tekjustofnum.

Ég tel ekki, virðulegi forseti, ástæðu til að tala meira fyrir þessu máli. Þetta skýrir sig sjálft. Meginefnið er að af þessum skuldum verði heimilt að reikna dráttarvexti eins og er hjá öðrum innlánsstofnunum skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands þar um.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn. og ég bendi á að það er gert ráð fyrir því að þetta mál fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi.