08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3520 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

373. mál, sjúkraflutningar

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Það má vel vera að ekki sé að öllu leyti rétt að bera saman Ísafjarðarkaupstað og Vestmannaeyjar, en hitt vil ég undirstrika að Ísafjörður annast ekki sjúkraflutninga í báðum Ísafjarðarsýslum. Bolungarvík er undanskilin. Þar framkvæmir lögreglan sjálf sjúkraflutninga. Þetta ætti hæstv. dómsmrh. að vita. Og ég skil ekki ef hæstv. dómsmrh. er ekki kunnugt um bréf sem var skrifað 1984 og er undirritað af sýslumanni á Ísafirði þar sem þessu er harðneitað.

Ég óska gjarnan eftir því og helst vildi ég fá svör um það að hæstv. ráðh. beitti sér í þessu máli, fengi á því lausn sem báðir aðilar geti við unað eins og annars staðar hefur gerst. Ég tel að Ísfirðingar geti ekki unað við það öllu lengur að vera nánast misrétti beittir að þessu leytinu til, í kostnaði, miðað við aðra íbúa landsins. Ég tek undir það með fyrrv. hæstv. dómsmrh. Friðjóni Þórðarsyni að auðvitað er þetta best komið í höndum löggæslumanna ef því verður við komið. Ég tel að því megi við koma á Ísafirði eins og annars staðar.

En ég ítreka að ég óska eftir því að hæstv. ráðh. beiti sér í þessu máli og hlutist til um að finna á því lausn.