10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3605 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

7. mál, skipulag svæðisins umhverfis Gullfoss og Geysi

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég fagna þeirri niðurstöðu sem hefur orðið í nefndinni um breytingu á þessari tillögu. Ég hygg að það sé hið skynsamlegasta mál að hefja undirbúning að skipulagi á þessu svæði sem er eitt mesta ferðamannasvæði landsins og hefur að geyma einhverjar mikilvægustu náttúruauðlindir okkar Íslendinga í því tilliti. Þar þarf að vanda vel til alls skipulags. En mér þykir rétt að taka fram af þessu tilefni, vegna þess að till. miðar að nokkru leyti við það að hafist verði handa um uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu og að henni verði komið upp á einum stað á svæðinu, að hæstv. samgrh. hefur nýlega ákveðið að setja á fót sérstaka nefnd sem á að hafa það verkefni að vinna að tillögugerð um uppbyggingu ferðamannaþjónustu á þessu svæði. Ég geri ráð fyrir að sú nefnd geti hafið störf innan tíðar og mikilvægt er að sú skipulagsvinna sem fram fer verði samræmd störfum þeirrar nefndar en í sjálfu sér er hér um að ræða aðskilin verkefni. Það er nauðsynlegt að árétta að fullt samstarf verði á milli skipulagsaðila og þeirra sem fá það verkefni að gera tillögur um uppbyggingu ferðaþjónustu á þessum mikla ferðamannastað.