10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3608 í B-deild Alþingistíðinda. (3289)

403. mál, réttur launafólks til námsleyfa

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni hin gagnmerkasta tillaga og reyndar mjög brýnt hagsmunamál því að í því þjóðfélagi sem við búum í nú, þar sem breytingarnar verða jafnörar á störfum manna og raun ber vitni, er það miklu meira en lífsnauðsynlegt að menn geti átt þess kost að endurmennta sig til að geta lagað sig að síbreytilegum vinnumarkaði. Ég styð því þessa till. heils hugar.

Ég átti eiginlega það erindi helst í ræðustól að spyrja hv. flm., 3. þm. Reykv. hvers vegna hann orðar þriðju setningu fyrri málsgr. till. svo: „Í frv. skal einnig gera ráð fyrir stofnun sjóðs í þessu skyni til þess að standa undir kostnaði við námið sjálft og til þess að bæta upp launatap meðan á námsleyfi stendur.“ Ég vek athygli á því misræmi sem er milli orðalags í till. sjálfri og samþykktar sambandsstjórnar Alþýðusambands Íslands þar sem talað er um að „gera tillögur um stefnu ASÍ varðandi rétt verkafólks til að sækja námskeið og aðra fræðslu án skerðingar launa“.

Enn fremur kom fram í máli hv. flm. að ekki er eingöngu um hugsanlegt launatap að ræða hjá mönnum, sem getur orðið allverulegt miðað við það mikla vinnuálag sem er á mönnum í dag, heldur er oft á tíðum líka um aukakostnað að ræða vegna skólagjalda og skólasóknar. Þá er líka spurning hvernig hugsanlega verður staðið að því að bæta mönnum það upp. Hefði ekki þurft að kveða á um þetta sama skilyrði í tillögunni, þ.e. að stofna sjóð í þessu skyni til að standa undir kostnaði við námið sjálft til að bæta mönnum launaskerðingu? Þá á ég við að það mundi vera meira ótvíræð ábending til ríkisstj. að hér er ekki verið að tala um það að gutla í menn einhverjum krónum upp í launatap, heldur að gera þeim kleift að stunda endurmenntunarnám nákvæmlega á sama grundvelli og þeir hafa stundað sína vinnu.