10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3613 í B-deild Alþingistíðinda. (3293)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég held að sú till., sem hér er til umræðu, sé fyrir margra hluta sakir hin ágætasta. En ég tel að þó sé á henni einn alvarlegur og stór galli. Hann er sá að ef farið er að hugmyndum tillöguhöfundar er verið að tala um 40 ára greiðslutíma á íbúðum til láglaunafólks. Ég held að það sé gífurlega mikil bjartsýni þar á ferðinni um greiðslugetu láglaunafólks í landinu í dag. Auðvitað getur tillöguhöfundur sagt að hann reikni með batnandi hag láglaunafólks með tímanum. Ég þori að fullyrða að miðað við launastöðu láglaunafólks í dag sé það alls ekki ofgert að áætla a.m.k. um 60 ára lánstíma þegar um kaup með þessum hætti er að ræða. Það sé í raun og veru sú minnsta fyrirgreiðsla sem hægt sé að bjóða upp á ef kaupin eru ekki greidd niður beinlínis með einhverjum öðrum hætti.