10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3622 í B-deild Alþingistíðinda. (3301)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna fsp. frá hv. 3. þm. Reykv. til mín vil ég upplýsa að hin sérstaka nefnd undir forustu hagstofustjóra, sem var skipuð til að forma þessi mál í sambandi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins um húsnæðismálin, hefur unnið ötullega í þessu máli og hefur haft samráð við milliþinganefnd sem er einnig að störfum og húsnæðismálastjórn og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef í dag er stefnt að því að frv. frá nefndinni verði tilbúið á mánudag og verði þá afgreitt í ríkisstj. á þriðjudagsmorgun. Ég held að það sé ljóst að ríkisstj. muni leita eftir samkomulagi við Alþingi um að tryggja afgreiðslu þessa máls fyrir þinglok og til þess þarf að sjálfsögðu að leita afbrigða. Það verður ekki afgreitt nema með því að fullt samkomulag verði um málið og eftir því verður örugglega leitað. Það eru engin áform önnur en að standa við að gera það að lögum á þessu þingi.