15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3826 í B-deild Alþingistíðinda. (3520)

402. mál, úttekt á umfangi skattsvika

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Nefnd sú sem hér um ræðir, sem skipuð var samkvæmt ályktun Alþingis frá 3. maí, var skipuð í nóvember 1984, en hóf störf í ársbyrjun 1985. Hún hefur lokið starfi sínu og lagt fyrir fjmrh. ítarlega skýrslu um það efni sem hún fékk til athugunar. Hún hefur unnið mikið starf og að mínu mati gert verkinu góð skil. Formaður þessarar nefndar var Þröstur Ólafsson hagfræðingur. Ég ætla að þessi skýrsla verði birt og kynnt almenningi á föstudag og hún verður lögð fram á hinu háa Alþingi fyrir þinglausnir.

Það er ljóst af helstu niðurstöðum nefndarinnar að svo sem mjög hefur verið um rætt mörg undangengin ár er allnokkur dulin atvinnustarfsemi í landinu og skattsvik óeðlilega mikil þó að deila megi um hvort niðurstöður nefndarinnar um það efni séu í samræmi við þær getsakir sem menn hafa haft uppi í því efni. Meginniðurstaða starfshópsins er sú að umfang dulinnar starfsemi hér á landi sé á bilinu 5-7% af vergri landsframleiðslu og ef miðað er við 6% meðaltal nemi þetta um 6,5 milljörðum kr. á árinu 1985 miðað við áætlaða verga landsframleiðslu það ár. Tap hins opinbera að mati nefndarinnar vegna vangoldinna beinna skatta og söluskatts er áætlað um 2,5-3 milljarðar kr. á árinu 1985.

Nefndin telur að engar óyggjandi leiðir séu til að áætla söluskattssvik, en gerir þó ráð fyrir að umfang þeirra hér á landi sé um 11% af skiluðum söluskatti og það jafngildi um 1,2 milljörðum kr. árið 1985.

Samkvæmt niðurstöðunum er helst talið að dulin atvinnustarfsemi eigi sér stað í byggingarstarfsemi, persónulegri þjónustustarfsemi af ýmsu tagi, iðnaði, verslun, veitinga- og hótelrekstri.

Nefndin hefur reynt að gera grein fyrir helstu ástæðum skattsvika, bendir á flókið skattkerfi með óljósum mörkum milli hins löglega og ólöglega, frádráttar- og undanþáguleiðir, há skatthlutföll, skattvitund almennings sé tvíbent og auk þess beri að nefna að eflaust eigi tilhneiging til lagasetningar og opinberra hafta á ákveðnum sviðum sinn þátt í örvun til skattsvika.

Í tillögum nefndarinnar til úrbóta er vikið að skattalögum og framkvæmd þeirra og lögð áhersla á einföldun skattalaga og fækkun á undanþágum og afnám margs konar frádráttarliða. Það er lögð áhersla á ákveðnari og markvissari refsingar og þyngri refsingar. Að því er varðar bókhaldslög eru tillögur í ýmsum efnum um herta og ákveðnari framkvæmd og eins að því er varðar skatteftirlitið og framkvæmd þess sjálfs.

Þetta eru í meginatriðum niðurstöður nefndarinnar, en á föstudag verður skýrsla hennar birt í heild sinni.