05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

72. mál, jöfn staða og jafn réttur karla og kvenna

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. fyrirspyrjanda 4. þm. Reykn. á þskj. 77 vil ég geta þess fyrst að lög nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, voru staðfest á ríkisráðsfundi þann 28. júní s.l. Það eru því liðnir aðeins fjórir mánuðir frá því að lögin tóku gildi.

Í 13. gr. laganna er kveðið á um skipun jafnréttisráðs. Skv. þeirri grein á jafnréttisráð að annast framkvæmd þessara laga. Jafnréttisráð skal skipað sjö mönnum og jafnmörgum til vara til tveggja ára í senn og skulu þeir skipaðir þannig: Einn skipaður af Hæstarétti, er hann formaður ráðsins, einn skipaður af félmrh. og er hann varaformaður, einn skipaður af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn skipaður af Alþýðusambandi Íslands, einn skipaður af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn af Kvenréttindafélagi Íslands og einn af Kvenfélagasambandi Íslands.

Ég vil geta þess í sambandi við þessa fsp. að þrátt fyrir mikinn eftirrekstur frá hendi félmrn. hefur gengið ákaflega hægt að fá þessa nýju tilnefningu frá þessum aðilum og það stendur þannig í dag að einn aðili, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, er ekki búinn að tilnefna í ráðið en vonandi verður það núna eftir nokkra daga.

Í 15. gr. laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru talin upp verkefni jafnréttisráðs og eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er í 2. tölul. kveðið á um að ráðið skuli vera stefnumótandi aðili í jafnréttismálum hér á landi og ráðið vinni framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn sem lögð er fyrir félmrh. Í áætlun ráðsins á að kveða á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna. Í 1. málsgr. 22. gr. þessara laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem er tilefni fsp. hv. þm., segir að félmrh. skuli leggja fyrir ríkisstjórnina framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn. Þar skal kveðið á um fyrirhugaðar aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

Í 2. málsgr. 22. gr. er tekið fram að við gerð framkvæmdaáætlunar félmrh. skuli höfð hliðsjón af áætlun jafnréttisráðs, sbr. 2. tölul. 15. gr. En sú áætlun liggur ekki fyrir af þeirri ástæðu sem ég hef áður greint frá, að ráðið er ekki enn fullskipað. Af því leiðir að áætlun félmrh. liggur heldur ekki fyrir.

Á þessu stigi máls er að sjálfsögðu ekki hægt fyrir félmrh. að tímasetja nákvæmlega hvenær framkvæmdaáætlun verður lögð fyrir Alþingi. En ég get gefið þá yfirlýsingu að ég mun leggja mjög harða áherslu á að láta hraða þessari framkvæmdaáætlun í samræmi við lögin svo hægt verði að leggja þá áætlun fyrir ríkisstjórn og fyrir Alþingi með eðlilegum hætti eins og stefnt er að með þessum lögum. Ég vona fastlega að svo geti orðið mjög fljótlega því að sú tilnefning, sem þegar er komin í ráðið frá öllum aðilum að undanteknu BSRB, gefur til kynna að þar er mjög starfhæft fólk sem mun ábyggilega ekki liggja á liði sínu að standa að þessu máli.