16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3959 í B-deild Alþingistíðinda. (3584)

248. mál, póstlög

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Það er líklega ekki enn þá talið til tafa í þessari deild þegar menn mæla fyrir stjfrv., en ég geri ráð fyrir því að það sé það eina sem stuðningsmönnum ríkisstj. sé ætlað að gera, mæla fyrir frv. ríkisstj. en láta skoðanir sínar að öðru leyti kyrrar liggja.

Hér mæli ég fyrir nál. samgn. Ed. Alþingis um frv. til póstlaga. Nefndin hefur fjallað um frv. á fundum sínum og kvatt til viðtals við sig Halldór S. Kristjánsson, Ragnhildi Hjaltadóttur og Rafn Júlíusson póstfulltrúa, en þau voru þessu máli öllu saman gerkunnug.

Nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt frv. óbreytts eins og það var lagt fyrir Ed. Þar með sé ég ekki ástæðu til að fjalla um það efnislega með því að samgrh. flutti framsöguræðu fyrir málinu sem bæði var skýr og einnig að öðru leyti mjög áheyrileg. Ég ætla því ekki að fara yfir þetta svið aftur, virðulegi forseti.