05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

23. mál, aukafjárveitingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir umbeðna skýrslu sem við þm. Alþb. fórum fram á að gerð yrði 14. okt. s.l. Það liggur fyrir að aukafjárveitingar hafa verið á árinu 1 089 919 kr. sem er ærið há tala svo að ekki sé meira sagt.

Ástæðan fyrir því að spurt var sérstaklega um tímabilið frá 16. júlí til 15. okt. var sú að spurnir höfðu borist um óeðlilegan fjölda aukafjárveitinga á þessu tímabili, enda kemur í ljós að þær hafa verið alls 213 971 000 kr. Þetta er allhá tala og tala sem við hv. þm. verðum oft að sætta okkur við að sé ansi miklu lægri þegar um er að ræða ýmis þjóðþrifamál.

Í skýrslu hæstv. fjmrh. er tíundað lið fyrir lið í hvað þessir peningar hafa farið. Margt af því eru að sjálfsögðu hin mætustu málefni og ekkert út af fyrir sig við því að segja að slík málefni séu styrkt. Enda er það ekki aðalatriði í þeim athugasemdum sem ég mun hér gera, heldur það að fjvn. situr svo til allt árið við að reyna að deila út því fé sem til skiptanna er í þjóðfélagi okkar, verður að neita ótal beiðnum um fjármuni og oft er það áreiðanlega þvert um geð fyrir hv. þm. sem þar sitja og síðan flytja hv. þm. hér á hinu háa Alþingi hvers kyns brtt. sem er umsvifalaust hafnað. Ég er alveg sannfærð um að það er stundum gert gegn betri vitund eða vegna þess að peningarnir einfaldlega eru ekki til.

Það hlýtur því að vekja þó nokkra athygli þegar hægt er að finna skyndilega á þremur mánuðum 213 971 000 kr. sem, ég leyfi mér að segja, er skipt af nokkru handahófi og að því er virðist skv. beiðnum hinna ýmsu aðila. Við það hef ég það að athuga að það hlýtur að skiptast nokkuð óréttlátt milli manna því að það er því einu háð að menn hafi farið í fjmrn. og beðið um styrk til hinna ýmsu málefna og verkefna.

Enn þá meiri athygli vekur þó að þegar litið er á þessar tölur reiknast mér til að 44 882 000 kr. hafi farið út úr fjmrn. án þess að nokkur fagráðherra hefði um þær beðið. Það hlýtur að vera dálítið vandræðalegt fyrir viðkomandi ráðherra, sem eflaust hafa hvað eftir annað orðið að neita þessum beiðnum, þegar síðan er hægt, án þess að nokkurt samráð sé við viðkomandi ráðherra haft, að greiða þessa peninga út.

Ég vil taka hér eitt lítið dæmi. Annars geta menn að sjálfsögðu lesið þetta sjálfir. Hér er veitt 1 millj. kr. til útgáfu þriggja ritverka á vegum stofnunar Árna Magnússonar. Ekki skal ég telja þessa milljón eftir þeirri mætu stofnun. En ég hygg að hæstv. fyrrv. menntmrh. hljóti að verða dálítið undrandi þegar slík upphæð er umsvifalaust greidd. Ég efast ekki um að hún hefði gjarnan viljað hafa þessa upphæð inni í fjárlögum. Svona mætti lengi telja.

Mergurinn málsins er sá að við erum oft, hv. þm., að flytja mál sem kosta peninga og ekki nærri eins mikla peninga eins og þetta. Ég vil minna menn á að ég flutti frv. til l. um daginn þess efnis að mæðralaun yrðu greidd til 18 ára aldurs í staðinn fyrir 16 ára aldur. Slíkt kostar 30 millj. kr. á ári. Ég hefði mjög gjarnan viljað sjá þessar 48 millj. kr. fara í t.d. málefni eins og það. Vitaskuld má endalaust deila um hvaða verkefni eru verðugri en önnur í landinu, en fá eru trúlega verðugri en að tryggja afkomu barna í landinu. Ég get vel ímyndað mér að flestir hv. þm. hefðu viljað samþykkja það hér á hinu háa Alþingi að greiða 1,5 millj. kr. í styrk til Ólympíunefndar Íslands. Ég býst við að við hefðum næstum því öll orðið að hafna þessu vegna þess að okkur fyndist þetta ekki sérstakt forgangsverkefni. Þess vegna hlýtur það að koma dálítið annarlega fyrir þegar hægt er að sækja þetta upp í fjmrn. án þess að nokkur hafi um það fjallað.

Þetta er langur og mikill listi og ástæðulaust að vera að tíunda hann, en meginefni málsins er að það liggur við að það sé niðurlægjandi fyrir hv. alþm. að sjá upphæðir eins og þessar sem greiddar eru án alls samráðs við þá. Vissulega skal ég taka undir að hæstv. fjmrh. verður að hafa eitthvert svigrúm til að taka ákvörðun um fjármuni. En ég verð að segja eins og er: Fyrr má nú vera!

Ég held að það hljóti að vera ankannalegt að eftir að hv. fjvn. hefur farið vandlega ofan í allar greiðslur til skólabygginga ár hvert skuli vera veitt fé til skólabygginga fram hjá þeirri áætlun sem fyrir liggur og svo verulega að um umtalsverðar upphæðir er að ræða. Þannig mætti lengi telja. Það er ekki sýnilegt að hæstv. menntmrh. hafi farið fram á neinar breytingar að þessu leyti. Ég held þess vegna að þessar fjárveitingar hljóti að hafa verið töluvert tilviljanakenndar og það sé full ástæða fyrir hv. þingheim að gera nokkuð strangari kröfur til þess að fjárlögum sé fylgt sem mest má vera. Vitaskuld verðum við að sætta okkur við að breytingar á kjarasamningum og annað slíkt veldur óhjákvæmilega aukafjárveitingum, en það hlýtur að vera heldur óviðeigandi að alls kyns aðilar í þjóðfélaginu eigi beina leið að ráðuneytinu sjálfu og fari þaðan út með stórfé, hversu góð mál sem þar annars eru á ferðinni. Það hlýtur að vera verkefni hins háa Alþingis og fjvn. að taka ákvörðun um í hvað þeir fjármunir, sem til skiptanna eru, fara.

Ég vil að lokum þakka hæstv. fjmrh. fyrir skýrsluna sem ég tel að sé vel og heiðarlega unnin. Þó er erfitt að sjá, og má vera að ég hafi ekki kunnað að leita að þeim liðum, en ég sakna ýmissa stórra upphæða, sem eru einhvers staðar annars staðar í dálkum fjmrn., sem ég hef ekki haft tíma til að gera leit að. Nægir þá að nefna 40 millj. sem fóru í að kaupa hús fyrir Áfengisverslun ríkisins í nýjum miðbæ. Slíkt er á einhverjum eignaskiptareikningum eða jafnvel í reikningum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sjálfrar, ég veit það ekki, en vissulega eru það fjárveitingar líka sem koma einum þegn í landinu betur en ýmsum öðrum. Ég hygg að þegar allt kemur til alls geti fleira heitið aukafjárveitingar en það sem hér er talið, en ég hygg að hæstv. ráðherra hafi gert sem hann gat og þakka fyrir það.