16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (3656)

202. mál, verðbréfamiðlun

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og hv. deild sjálfsagt rekur minni til gerði ég mjög að umræðuefni hér fyrir ekki löngu síðan stöðu verðbréfasjóða og viðskiptahætti þeirra. Sú umfjöllun vakti þó nokkra athygli bæði hér og annars staðar í þjóðfélaginu. Mér þykir rétt að fram komi nú við þetta tækifæri að eftir þá umræðu fóru fram samræður milli mín og aðila sem eru í fjh.- og viðskn. Ed. þar sem frv. til l. um verðbréfamiðlun var til umfjöllunar. Út frá þeim samræðum urðu þó nokkrar breytingar á frv. til laga um verðbréfamiðlun sem ég tel að séu til mikilla bóta og þá frv. eins og það liggur hér fyrir eftir breytingarnar í Ed.

Þessar breytingar sneru að ýmsum þeim atriðum sem ég hafði gert að umtalsefni og ég tel eftir atvikum að viðunandi árangur hafi náðst í því að tekið væri á því máli með verðbréfasjóðina sem ég gerði þá sérstaklega að umtalsefni.

Ég vil sem sagt við þetta tækifæri láta í ljós ánægju mína með það að þær endurbætur hafa verið gerðar á frv. sem raun ber vitni og til þeirrar áttar sem gagnrýni mín beindist að og ég taldi nauðsynlegt þó að sjálfsagt megi þar í framtíðinni enn betur um bæta.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja áherslu á að framfylgt verði ákvæðum laga, sem reyndar hæstv. viðskrh. taldi að ættu við í þessu efni og eru ítrekuð í frv. eins og það liggur nú fyrir um verðbréfamiðlun, þ.e. ákvæði laga um samkeppnishömlur, verðlag og óréttmæta viðskiptahætti, þannig að það dynji ekki yfir fólk misvísandi auglýsingar um starfsemi þessara sjóða og enginn taki ákvarðanir sínar vaðandi í villu um það hvers konar fyrirkomulag er hér á ferðinni.