17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4029 í B-deild Alþingistíðinda. (3716)

Almennar stjórnmálaumræður

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar er lánsamasta ríkisstjórn sem setið hefur að völdum hérlendis í 15 ár. Nú mætti ætta að við þessa lánsömu ríkisstjórn byggi fullt eins lánsöm þjóð. Málum er bara engan veginn þannig farið. Í þessu landi býr ólánsöm þjóð. Hennar stærsta ólán er þessi lánsama ríkisstjórn. Ólán þjóðarinnar felst í því að hún fær í engu að njóta lánsemi ríkisstjórnarinnar.

Ráðherragengið og sérfræðingasveitir þess eru á sex mánaða verðbólguhjöðnunarfylliríi og enginn í þeim söfnuði hirðir um að undirbúa sig undir timburmenn aldarinnar í nóvember. Lukkutröllin í ríkisstjórninni trúa því vafalaust að lækkandi olíuverð, hækkandi fiskverð og blíða til lands og sjávar sé þeirra verk á sama hátt og þeir trúa því að hjöðnun verðbólgunnar hafi verið það. Það er skondið að líta til þess að það eru ekki kommafantarnir í Alþb. sem stíga fyrsta stóra skrefið í átt til langþráða landsins, Sovét-Íslands, heldur er það postulasveit frjálshyggju og kapítalisma sem boðar og berst fyrir þjóðarsátt um sultarlaun og miðstýringu.

Nýgerðir og svokallaðir kjarasamningar eru stærsta blekking Íslandssögunnar og þannig að gjaldmiðilsbreytingin verður að minni háttar brellu í samanburðinum og byggði þó margur auð sinn á fimmaurakúlum í kjölfar hennar. Hér er sá munur á að við gjaldmiðilsbreytinguna skyldu verðmæti fólks óskert, en með talnaleikjum og efnahagstöfrabrögðum þjóðarsáttarinnar hefur vinnuframlag og eignir almennings verið skert um 20-30%. Í þessum skrípaleik hafa kjör fólks engu skipt. Það er samið um laun til handa hinum sérstöðulausu, laun sem hver heilvita maður sér að enginn lifir mannsæmandi lífi af. Menn gera rétt í því að átta sig á að í svokölluðum kjarasamningum er raunverulega verið að semja um bindandi kjör fyrir þá sem hafa lægstu launin. Aðrir, þeir sem hafa menntun eða aðra sérstöðu, semja sjálfir hver á sínum vinnustað.

Nýgert samkomulag verkalýðs- og atvinnurekenda staðfestir þá nauð og eymd sem þessir aðilar hafa reyrt sig í með meðaltalsbulli sínu. Á Íslandi verða ekki greidd mannsæmandi laun fyrr en farið verður að semja um það sem er til skiptanna á hverjum vinnustað fyrir sig. Það er uggvænlegt en ljóst að ekki er enn séð fyrir endann á Garðastrætisstjórninni. Nýjasta tilskipunin birtist hér á Alþingi í gær. Ákvarðanir aðila vinnumarkaðarins í húsnæðismálum. Stefnulaust plagg sem virðist ætlað að dæla fé sem kúgað er út úr lífeyrissjóðum í byggingabransann. Þeir, sem hafa gerst svo djarfir að freista þess að semja upp á sína um kaup og kjör og hafa þannig ætlað að nota sjálfsagðan rétt sinn, hafa orðið fyrir barðinu á sveigjanleika hv. alþm. gagnvart mannréttindum þegar óbreytt ástand á meðaltalsafkomutöflum stjórnvalda er annars vegar. Það er vert að gefa gaum að því að blekið var vart þornað í Garðastrætinu er hæstv. ráðherrar og snatasveitir þeirra hófu af umtalsverðri ábyrgð tal um að ýmislegt væri athugavert við innra öryggi landsins. Það er eftirtektarvert að í þeirri umræðu hefur ekki verið vikið að öryggi landsmanna heldur fyrst og fremst stofnana.

Ég hefði haldið að það væri alveg á hreinu að lýðveldið og stofnanir þess er til orðið fyrir þegnana en ekki öfugt. Frjáls þjóð verður að vera þess umkomin að leggja niður vondar stofnanir og jafnvel að losa sig við vond stjórnvöld með öllum tiltækum ráðum sé nauðsyn á. Við megum aldrei fallast á persónunjósnir, leyniþjónustu og heimildir til aðgerða sem eiga sér þann tilgang einan oftast að reka fleyg á milli þjóðar og ríkis. Lýðveldið og stofnanir þess eru samkomulagsatriði allra þegna þessa lands. Þetta verða stjórnmálamenn að skilja, en augljóslega gengur kommúnistunum í Sjálfstfl. það illa.

Og svo að vikið sé að þessum fulltrúum einkaframtaksins þá verður ekki betur séð en að skilningur hæstv. ráðh. Sjálfstfl. á því framtaki sé sá að þeim beri allt þetta framtak og þannig og þess vegna sé það einka.

Einn hæstv. ráðherra ygglir sig í sjónvarpi út í fyrirtæki úti í bæ sem leyfir sér þann munað að selja hæstbjóðanda eignir sínar vegna þess að hæstv. ráðh. hafði látið annan vilja í ljós. Annar hæstv. ráðherra breiðir úr sér yfir Austfirði alla, belgir sig út og gefur skólaálmu hér, háskólalíki þar, að ógleymdri verksmiðju fyrir þjóðina alla að tapa á um ókomin ár. Nú er gott eitt um frumkvæði og dugnað ráðherra að segja og því ber að fagna að upp komi í landinu ráðherrar sem ekki þjást af meðaltalsvilja og skoðunum. En ráðherrar mega aldrei frekar en aðrir þjónar fólksins gleyma því að eðli málsins samkvæmt þá erum það við, þjóðin öll, en ekki hann einn sem framkvæmir.

Sitthvað fleira er athyglisvert við það lánsemislið sem myndar hæstv. ríkisstjórn. Lagasmíð og lagasetning hefur í hennar meðförum orðið persónubundin, sniðin að þörfum og skapferli einstakra ráðherra, ef lagatextinn á annað borð er fullsmíðaður.

Stjórnkerfi okkar hefur mörg greinileg fráhvarfseinkenni sem birtast t.d. í því að um leið og sú þróun á sér stað í nágrannalöndum okkar að valdi er dreift og dregið úr miðstýringu, eykst hún hérlendis. Við búum enn við stjórnarhætti kreppu og styrjalda og það eru engin teikn á lofti um að á því verði breyting á næstu áratugum. Hvert miðstýringarfrv. á fætur öðru verður að lögum í þessari virðulegu stofnun. Kvóti í sjávarútvegi og landbúnaði, sveitarstjórnarlög, selveiði. Einkennandi fyrir þessi lög og frv. eru setningar eins og: Ráðherra getur, ráðherra ákveður, ráðherra er heimilt. Þannig hefur hæstv. ríkisstj. í lagasmíð sinni staðfest þann vonda sið að lög séu fyrst og fremst alls kyns heimildir um hitt og þetta til ráðherra og stjórnarstofnana.

Herra forseti. Síst ætla ég mér það hlutverk að telja kjark úr þjóðinni nú þegar loksins vorar í efnahagslífinu. Þjóðin er að drukkna í kjarahjólbörðum og kostabílum eða hvar í veröldinni býr fólk við þá makalausu aðstöðu að kjarabæturnar vaxi í réttu hlutfalli við eyðsluna? Og hvers vegna ætti fólk yfirleitt að bera ugg í brjósti, eða er ekki ljóst að fjmrh., sem skattlagði bakaríin og ferðamennina, veit hvað hann er að gera? Er ekki jafnframt ljóst að ríkisstjórnin - sem lét semja frv. um skipulega útrýmingu eða fækkun á sel og tókst að friða endanlega þann hluta stofnsins sem frá örófi hefur verið réttdræpur - er ekki ljóst að sú ríkisstjórn veit hvert hún er að fara? Ríkisstjórnin sem með lagasetningu afnemur forréttindi seðlabankastjóra og sker ráðningartíma þeirra niður við trog, en undanskilur þá sem nú sitja í þeim embættum, það er auðsjáanlega gallhörð ríkisstjórn sem kallar ekki allt ömmu sína.

Herra forseti. Endurskoðun stjórnarskrárinnar er jafngömul lýðveldinu. Lengi hefur staðið til að gera þessari þjóð stjórnarskrá og henda þeirri þýðingu sem nú er í gildi. Nefnd á vegum hins háa Alþingis hefur verið til frá því fyrir lýðveldisstofnun. Enn þá hefur ekki tekist að ná samkomulagi um annað en hlutaskiptareglur á milli stjórnmálaflokka. Núverandi stjórnarskrárnefnd hefur ekki séð ástæðu til að funda í heilt ár og það eru vond tíðindi. Hins vegar eru góð tíðindi af fólkinu í landinu og stjórnarskrá. Fólk um allt land hefur stofnað Samtök um jafnrétti á milli landshluta. Á vegum þessara samtaka vann fjöldi fólks að því að gera stjórnarskrá. Þessu skal fagna eða hvar á stjórnarskrá að verða til ef ekki meðal fólksins? Stjórnarskrá sem ekki á rætur hjá þjóðinni verður aldrei annað en orðin tóm. Það er mín skoðun að þessi samtök séu vísir mikilla breytinga í íslenskri pólitík. Það má merkja af ýmsu, m.a. fýlu þorra hv. alþm. í garð þessarar hreyfingar. Ég vona að samtök um jafnrétti á milli landshluta verði sú þúfa sem dugir til að velta því þrúgandi hlassi sem íslensk stjórnmál hafa orðið á þessari þjóð.

Herra forseti. Það er ósennilegt að það vori með þessari þjóð fyrir tilverknað hæstv. ríkisstj. Ég hef hins vegar þá trú á fólkinu í landinu að það vori þrátt fyrir þessa ríkisstj.

Ég hef lokið máli mínu.