18.04.1986
Efri deild: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4111 í B-deild Alþingistíðinda. (3787)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Frsm. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Mér er mikil ánægja að svara fsp. síðasta hv. ræðumanns. Eignamaður skilgreinist út frá frv. sjálfu. Þar er kveðið á um hvar mörk eignarskattsstofns skuli liggja, hvort menn eiga að greiða eignarskatt vegna þessa máls eða ekki. Þeir sem greiða þennan eignarskatt teljast eignamenn og kemur af sjálfu sér að þannig er það skilgreint.

Hv. þm. telur það ekki mikið að eiga ekki nema 1,6 millj. í eignarskattsstofn og þótt mér sé ekki mjög tamt að ræða hér persónuleg mál get ég upplýst þm. um að ég á ekki svo mikið þannig að ég t.d. telst ekki til þeirra sem greiða í þessa þjóðarbókhlöðu. (EgJ: Þar eru þá mörkin hjá Kvennalistanum.) Nei, þar eru ekki mörkin hjá Kvennalistanum. Þetta eru þau mörk sem hæstv. menntmrh. setur í sínu frv. og við þau miðar brtt. En ég sé að hv. 5. landsk. þm. er búinn að biðja um orðið aftur og þá langar mig til þess að biðja hann, vegna þess að hann styður þetta frv., að útskýra hvað hann á við með orðinu þjóð. Hvað er þjóðarátak? Hvað þýðir orðið þjóð?