19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4206 í B-deild Alþingistíðinda. (3867)

419. mál, Atvinnuleysistryggingasjóður

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Þetta frv. hefur að geyma tvær mikilvægar breytingar á núgildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Önnur felst í því að heimilt verður að greiða atvinnuleysisbætur þegar stöðvun er á fiskvinnslu vegna hráefnisskorts. Áður hefur þurft oft og tíðum að segja fólki upp störfum af þessum sökum og þetta hefur valdið því að öryggisleysi hefur verið mikið í þessari starfsstétt.

Frv., bæði þetta ákvæði og hið síðara sem ég mun gera grein fyrir, er byggt á víðtæku samkomulagi aðila vinnumarkaðarins að þessu leyti og þetta er framhald af nýgerðum kjarasamningum, svo og kjarasamningum á s.l. sumri. Það hefur verið mjög vel unnið að undirbúningi þessa máls. Frv. hafa samið þeir Eyjólfur Jónsson í Atvinnuleysistryggingasjóði, Óskar Hallgrímsson í félmrn. og Þórður Friðjónsson í forsrn.

Síðara aðalatriði þessa frv, er um að heimilt sé að greiða bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði þegar fiskvinnslufólk er á starfsfræðslunámskeiðum. Það er gert ráð fyrir að slík námskeið veiti frekari réttindi og um leið má auðvitað ætla að þetta sé eitt af því sem við getum gert til að stuðla að betri vöruvöndun þannig að með þessu vinnst tvennt í senn: varan verður betri og starfið áhugaverðara auk þess sem þetta er grundvöllur vissra kjarabóta.

Menn spyrja væntanlega: Felur þetta frv. í sér útgjaldaauka fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð? Afar erfitt er að segja til um það á þessu stigi. Það hefur verið nákvæmlega hugleitt en mjög erfitt að segja til um það því að vitanlega hefur komið til atvinnuleysisbóta þegar uppsagnir hafa verið mjög tíðar í þessari grein. Þær verða ekki svo tíðar eftir þetta. Hér er um að ræða fastráðið fólk. En öryggi þess verður að sjálfsögðu meira þar sem vitað er að það heldur vinnu hjá hinu sama fyrirtæki eftir að þessu fyrirkomulagi verður komið á þótt vinnslustöðvun verði vegna hráefnisskorts, öryggi fyrirtækjanna eykst að því er stöðugleika vinnuafls varðar.

Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að þetta frv. fái jafngreiðlega brautargengi í þessari hv. deild og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr.