06.11.1985
Neðri deild: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég er innilega sammála hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að sú lýsing, sem hann gaf af ástandi sjávarútvegs, bæði til sjós og lands, er mjög alvarlegt. Og sú þróun, sem fram hefur farið á undanförnum árum, er mjög alvarleg og við því þarf eitthvað að gera. En ég er ekki endilega sammála hv. þm. að við þurfum að komast að sömu niðurstöðu 1985 eins og við gerðum 1956, fyrir 30 árum. Ég vil biðja hv. þm. að staldra við í salnum vegna þess að ég er að svara máli hans. Ég ætla að bíða, herra forseti, þar til að þm. kemur í salinn aftur. Ég vil endurtaka fyrir hv. þm. Sighvat Björgvinsson að mér finnst það ekkert sjálfgefið, eins og hann sagði - að: Við hljótum endilega að komast að sömu niðurstöðu 1985 og við gerðum 1956. Ég sé ekkert sjálfgefið við það. Og ég ber sömuleiðis engan kinnroða fyrir því að hafa ekki vitað 15 ára gömul né munað það nú hvað Alþýðuflokkurinn var að gera fyrir 30 árum.

Ég vil líka segja við hv. þm. Sighvat Björgvinsson að jafnvel háskólaborgarar geta haft þann metnað fyrir hönd fiskverkafólks að þeim finnist ekki nóg gert að bjóða þeim einungis skattalækkun sem svarar einum mánaðarlaunum. Þetta gæti nefnilega hæglega leitt menn til að halda að nú væri nógu vel gert. Þetta gæti hæglega kastað ryki í augu einhverra. Og það er ekki nógu gott.

Ágreiningurinn sem kvennaliðið gerir í þessu máli, eins og komið hefur fram, er ekki um mikilvægi fiskvinnslukvenna. Við Kvennalistakonur a.m.k. værum fyrstar til að viðurkenna að Íslendingar lifa á fiski öðru fremur og af fiski. Enn fremur að þessi undirstöðuatvinnuvegur er bæði vanvirtur og vanræktur og ekki síst þær konur sem vinna í fiskvinnslu. Það er rétt að hlutur þeirra er hvergi nógu góður, einkum ef tekið er tillit til hins afleita og slítandi bónuskerfis sem þær neyðast til að vinna eftir.

Ágreiningurinn er kannske fyrst og fremst vegna þess að það er ekki gert nógu vel við þessar konur og þessi leið, sem hér er boðið upp á, er ekki nógu góð, ekki nógu árangursrík. Það er alveg rétt að hún er viðleitni, hún er virðingarverð viðleitni. En að okkar dómi þá missir hún marks vegna þess að það eru ekki tekjur þessara kvenna og skattur af þeim sem þjaka þær mest. Það er fyrst og fremst skortur á mannsæmandi tekjum sem fiskvinnslufólki er erfiðasti bagginn og það, hve lengi það þarf að vinna við erfiðar aðstæður til þess að komast af, aðstæður sem síðan bjóða heim heilsuleysi. Það er ekki verjandi, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson. Þess vegna er miklu vænlegra að bjóða fiskvinnslufólki betri laun fyrir minni vinnu. Það væri skynsamlegra og fyrir því ættu þm. að beita öllum áhrifum sínum án þess þó að fara að blanda sér beint í kjarasamninga sem er ekki hlutverk löggjafans.

Ég vil benda hv. þm. Garðari Sigurðssyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni og öðrum þeim, sem hafa fylgst með þessum umræðum, að kynna sér málflutning þeirra kvenna úr þremur stjórnmálasamtökum sem hér hafa hver á sínum forsendum orðið sammála um að styðja ekki þessa leið til úrbóta eða alla vega hvetja ekki til hennar. Ég vil jafnframt taka hv. þm. vara við því að leggja þannig út af þessum málflutningi að konur á þingi vilji ekki bæta kjör þeirra kynsystra sinna sem vinna í fiskvinnslu. Það er ekki rétt, þvert á móti.