21.04.1986
Efri deild: 83. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4254 í B-deild Alþingistíðinda. (3962)

337. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. landbn. Ed. Alþingis um útflutning hrossa og er nál. á þskj. 941.

Eins og fram kemur í nál. hefur nefndin gert tillögur um breytingar á frv. og er ástæðan fyrir því sú að við meðferð málsins í Nd. hafði yfirdýralækni ekki verið gefinn kostur á að setja fram sín sjónarmið gagnvart þessari breytingu. Er brtt., sem fram kemur í afgreiðslu landbn., einmitt byggð á þeim athugasemdum sem hann lagði þar fram.

Mér finnst hins vegar vert að geta þess að okkar tillögur ganga ekki gegn upphaflegum óskum Hagsmunafélags hrossabænda því að þar var óskað eftir heimild til að víkja frá tilteknu aldursmarki sem er skv. fyrri lögum tíu ár.

Í erindi frá Hagsmunafélagi hrossabænda var leitað eftir að heimild væri gefin til að víkja frá þessu aldursmarki. Þess vegna fæ ég ekki séð annað en að hér hafi fengist sú lausn sem friður gæti verið um og jafnframt skilað hrossabændum þeim árangri sem þeir leita eftir.

Með hliðsjón af þessu vænti ég að virðuleg þingdeild geti fallist á okkar tillögur.