21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4311 í B-deild Alþingistíðinda. (4054)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 997. Nefndin mælir með samþykkt þessa frv., en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að fylgja eða flytja brtt. Það hafa þeir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og Svavar Gestsson gert á þskj. 1001. Þeir óska eftir því að þeirri brtt. fylgi grg., sem ég mun nú lesa, og fylgiskjal sem ég vísa til. Flm. leggja til að frv. verði samþykkt, en telja óhjákvæmilegt að gerðar verði á því breytingar.

1. Að skipan stjórnar útflutningsráðs verði þannig að viðskrh. skipi alla stjórnarmenn á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í brtt.

2. Að fellt verði út úr frv. að ráðið hafi tekjur af útflutningsgjaldi þar sem fyrir þinginu liggur frv. um að fella útflutningsgjöld niður.

Þetta var grg. með brtt. hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar og Svavars Gestssonar sem báðir skrifuðu undir þetta nál. með fyrirvara. Hins vegar skrifuðu undir án fyrirvara Páll Pétursson, Friðrik Sophusson og Ólafur G. Einarsson.

Varðandi tekjur af útflutningsgjaldi, sem getið er um í 6. gr. frv., eru allar horfur á að hér verði samþykkt á þinginu frv. til 1. um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, en þar er gert ráð fyrir að þetta útflutningsgjald verði afnumið. En það er heimild í því frv. að greiða af uppsöfnuðum söluskatti árgjald vegna fiskvinnslufyrirtækja í útflutningsstarfsemi þannig að aldrei kemur til með væntanlega að reyna á a-lið 6. gr. Í stað þess munu fyrirtæki greiða árgjöld skv. c-lið greinarinnar.