22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4452 í B-deild Alþingistíðinda. (4224)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég er nú eitt af þessum sóknarbörnum Hallgrímskirkju sem minnst var á af hæstv. heilbr.- og trmrh. áðan. Sé það rétt að þessi þáltill. á þskj. 22 sé andstæð byggingarnefnd Hallgrímskirkju get ég ekki með nokkru móti skilið hvers vegna hún er fram komin. Af hverju ættu þm. að hafa einhverja löggilda skoðun allt í einu á því hvernig á að standa að því að leggja síðustu hönd á þetta veglega, fallega guðshús eftir að áhugasamir einstaklingar hafa eytt áratugum af ævi sinni til þess að framkvæma það sem engum datt hug að þeir mundu geta gert á æviskeiði sínu? Og þá, á lokastigi byggingarinnar, koma fram góðviljaðir þm. sem vilja þá kannske breyta hugmyndum þeirra sem að hafa staðið allan tímann.

Það þarf ekki að lýsa þeim áhuga, þeim eldmóði, sem drifið hefur þessa einstaklinga, sem eru tiltölulega fáir, til framtaks, bæði að afla framlaga og standa sjálfir í byggingarframkvæmdum. Við höfum öll verið áhorfendur að því meira og minna og ætla ég ekki að lýsa því fórnfúsa starfi frekar.

Mér er alveg sama hvað einstakir stjórnmálamenn í öllum flokkum hafa samþykkt sem einhverja málamiðlun í þessu máli á síðustu stundu til að komast út úr því að eyða tíma, að eyða nokkrum klukkutímum af dýrmætum tíma Alþingis, og taka þá ákvörðun um að sameinast um tillögu um viðkvæmt verk sem verið er að vinna af einstaklingum, fórnfúsum einstaklingum, og brjóta þá niður kannske það sem þeir hafa unnið að alla sína ævi og þar með þá framtíðarsýn sem þeir hafa haft alla tíð frá byrjun. Þess vegna leggst ég gegn þessari till. og ég styð brtt. hæstv. heilbr.- og trmrh.