22.04.1986
Efri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4493 í B-deild Alþingistíðinda. (4252)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Þó að ég komi í ræðustól með mikið af pappírum í höndunum þýðir það ekki að ég ætli að rugla því samkomulagi sem er um að reyna að ljúka þessu á sem skemmstum tíma.

Í grófum dráttum er það við þetta frv. að athuga frá minni hálfu að mönnum sem að þessu stóðu virðist hafa sést yfir þá staðreynd að þeir eru að breyta lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er ekki bara stefna Húsnæðisstofnunar eða pólitík stjórnvalda að lána peninga heldur að stuðla að því með lánveitingum, eins og segir í 1. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins, „með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála og húsbygginga að landsmenn geti búið við öryggi í húsnæðismálum“. Ég tel að þetta frv. gangi nokkuð langt í að uppfylla þær kröfur sem stjórnvaldið gerir til sjálfs sín hvað lánveitingar snertir því að því er alls ekki hægt að neita að hér er um stórbreytingu að ræða hvað það snertir. Aftur á móti, og ég kenni því um hverjir að málinu stóðu því að það eru ekki stjórnvöld sem að þessu máli standa heldur óskyldir samningsaðilar úti í bæ, er algerlega brugðist síðari hluta 1. málsgr. 1. gr. laganna að standa þannig að því „með skipulagi húsnæðismála og húsbygginga að landsmenn geti búið við öryggi í húsnæðismálum“. Þegar þessi lög nema gildi, er verið að sigla inn í enn eina húsbyggingarölduna. Hér er gjörsamlega horfið frá þeirri stefnu, sem menn héldu að allir væru að verða sammála um að ætti að verða ofan á núna, þ.e. húsnýtingarstefnu, og sem kemur greinilegast fram í þeirri mismunun sem er milli þeirra sem byggja nýtt og kaupa nýtt og hinna sem kaupa gamalt. Eina leiðin til að stuðla að fullnýtingu eldra húsnæðis er sú að gera þessum aðilum a.m.k. jafnhátt undir höfði. Þannig mætti kannske ná því að nýta sem gerst allt það húsnæði sem þegar er byggt og útrýma heilsuspillandi og úrsérgengnu húsnæði og ef rétt væri líka að málum staðið hvað viðkemur útlánastefnu og skilyrði 1. málsgr. 1. gr. laganna mætti örva byggingu leiguíbúða á frjálsum markaði til að draga úr því óeðlilega fjölskyldumynstri sem allir þekkja og kannast við í dag.

Og síðast en ekki síst af stóru atriðunum sem hér er að að finna þó margt sé hér gott á ferðinni: Hvað í ósköpunum ætla stjórnvöld að gera fyrir fólkið sem einu sinni gekk undir nafninu Sigtúnshópurinn en er nú svo með öllu gleymt að menn vita eiginlega varla hvað þeir eiga að kalla þann hóp? Það er alveg greinilegt að hvorki þeir aðilar sem sömdu grunn þessara laga, þá á ég við samningsaðilana úr Garðastrætinu, né stjórnvöld sáu nokkra ástæðu til að taka alvarlega á því máli. Þannig eru þessi lög að stuðla að mjög mikilli mismunun til frambúðar ef ekki kemur neitt annað til af hálfu stjórnvalda sem réttir hlut þessa fólks.