23.04.1986
Efri deild: 88. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4512 í B-deild Alþingistíðinda. (4273)

423. mál, áfengislög

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð um það frv. sem liggur fyrir. Eins og hv. þm. muna var 2. umr. frestað að ósk dómsmrh. sem hafði athugasemdir fram að færa við þær brtt. sem nefndin lagði til á frv. og óskaði eftir því að málið yrði athugað nánar milli 2. og 3. umr.

Nefndin hefur haldið fundi í málinu og kallað fyrir aðila, lögreglustjóra og forsvarsmenn dómsmrn. Það var einkum eitt atriði sem var þeim þyrnir í augum. Þeir töldu að tillögurnar eins og við gengum frá þeim þrengdu heimildir lögreglunnar til skyndilokana á veitingastöðum ef upp kæmist þar um misferli í starfi þessara veitingastaða.

Nefndin hefur rætt brtt. sem eru á þskj. 1089. Þær eru samdar í samráði við dómsmrn. og varð það úr í samráði við starfsmenn þingsins að af tæknilegum ástæðum flytti ég brtt. einn. Þær hafa verið bornar undir nefndina og reyndar nefndir beggja deilda því að tíminn er mjög skammur en menn hafa viljað ganga frá þessum málum.

Brtt. eru þannig við a-lið lagt er til að hann orðist svo:

„3. mgr. orðist svo:

Sveitarstjórn veitir leyfi til áfengisveitinga á veitingastað. Við þá ákvörðun verði höfð hliðsjón af tilgangi laga þessara.“ Það er breytingin. „Áður en leyfi er veitt ska11eita umsagnar lögreglustjóra.“ Í brtt. nefndarinnar var það ákvæði að lögreglustjóri gengi úr skugga um hvort staðurinn uppfyllti skilyrði en reiknað er með að það sé óþarft ákvæði þar sem það er hlutverk sérstakrar nefndar.

Við b-lið. Liðurinn orðist svo:

„Síðasti málsl. 4. mgr. orðist svo: Öll leyfi skulu gefin út með fyrirvara um að stytta megi leyfistímann án skaðabótaskyldu ef sérstakar ástæður mæla með því. Dómsmrh. ákveður gjald fyrir hvert leyfi til áfengisveitinga sem lögreglustjóri innheimtir og rennur það í ríkissjóð.“

Þessi síðasta mgr. er samhljóða því fyrirkomulagi sem nú er og á m.a. að standa undir kostnaði við störf þeirrar nefndar sem er matsnefnd veitingahúsa.

Síðan er brtt. við d-lið og það er mergurinn málsins. Það er aðalbreytingin frá því sem nefndin lagði til í upphafi en það eru skýrari ákvæði um heimild lögreglumanna til skyndilokunar. Lagt er til að liðurinn orðist svo:

„6. mgr. orðist svo:

Skylt er lögreglumönnum að gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra veitingastaða sem hafa leyfi til áfengisveitinga. Ef veitingamaður brýtur gegn settum skilyrðum eða fullnægir þeim ekki lengur skal hann þegar missa leyfi sitt. Ef svo stendur á getur lögreglustjóri fellt leyfi niður um stundarsakir. Veitingamaður getur skotið ákvörðun lögreglustjóra til dómsmrh. en það frestar ekki framkvæmd ákvörðunarinnar.“

Þetta á að veita lögreglunni fullnægjandi heimildir til þess að hafa eftirlit með starfsemi vínveitingahúsa og beita skyndilokunum ef á þarf að halda.

Hv. 5. landsk. þm. flytur síðan brtt. á þskj. 1093 sem hann mun væntanlega gera grein fyrir.

Þess má geta að hv. 2. þm. Austurl. studdi ekki álit nefndarinnar og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt og er sú afstaða hans óbreytt.