23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4533 í B-deild Alþingistíðinda. (4316)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki teygja þessa umræðu, en ég vil segja örfá orð um þetta mál.

Við 1. umr. velti ég upp nokkrum spurningum sem mér finnst að geti skipt máli að því er varðar framkvæmd þessara laga. Kannske finnst öðrum það smámál, en eigi að síður held ég að það geti skipt verulega miklu máli.

Það var í fyrsta lagi spurningin um hvað komi til eftir að búið er að leggja niður Aflatryggingasjóð ef aflabrestur verður í einstökum verstöðvum eða landsvæðum. Mér finnst það vera aðfinnsluvert ef Alþingi afgreiðir mál frá sér án þess að vita örugglega að ef til þessa kemur verði gripið inn í til aðstoðar. Ég sé að vísu að í nál. er að þessu vikið og yfir það var farið hér áðan. Með leyfi forseta vil ég vitna í það. Þar segir:

„Að því ætti að stefna að hugmyndir um þetta efni komi fram sem fyrst og helst á haustþinginu, þ.e. að komið verði á einhvers konar aflatryggingu eða tekjutryggingu í þessum tilfellum.“

Út af fyrir sig er þetta gott. Ég tel þetta hins vegar ekki nægja. Ég held að það verði að liggja fyrir yfirlýsing annaðhvort frá hæstv. sjútvrh. hér við umræðuna áður en málið verður afgreitt eða frá hæstv. forsrh. um að það verði gripið til aðgerða til aðstoðar ef aflabrestur á sér stað þangað til búið er að koma málinu á þann rekspöl sem hér er talað um. Ég held að nauðsynlegt sé að fá slíka yfirlýsingu fram.

Í öðru lagi spurðist ég fyrir um hvernig á því stæði, sem ég tel enn að sé rétt, að verið væri að fella niður fæðispeninga til trillukarla eins og menn kalla svo. Ég sé ekki betur en það sé gert og ég spyr um ástæðuna: Af hverju eru þeir einir teknir út úr, trillukarlar, og felldir niður fæðispeningar til þeirra? Hver er ástæðan fyrir slíku? Við því vildi ég helst fá svör.

Og í þriðja lagi, án þess að ég teygi þetta um of, auðvitað mætti margt um þetta tala en það skal ekki gert af minni hálfu nú, spurðist ég fyrir um lífeyrisgreiðslur. Nú er gert ráð fyrir því að allar greiðslur fari til Lífeyrissjóðs sjómanna sem er hér í Reykjavík og á síðan að deila því fé út. Og ég spyr: Hvenær á hann að gera það? Ég sé ekki að það séu nein takmörk í frv. um það hvenær hann eigi að standa skil á þessu til annarra lífeyrissjóða. Ef ég fer rangt með biðst ég afsökunar, en það verður þá væntanlega leiðrétt. Er ekki rétt að í Lífeyrissjóð sjómanna á að borga, en hann á síðan að endurgreiða öðrum lífeyrissjóðum sjómanna? Og hvenær á hann að gera það? Ég sé ekki að neitt sé um það í frv. Ég held að þurfi að koma þar inn örugg ákvæði um að það sé ekki dregið saman fé hér í Reykjavík og safnist upp þar fé sem á með eðlilegum hætti að fara út á land.

Þetta eru þau þrjú atriði sem ég vildi helst nefna núna og vil gjarnan fá svör við.

Ég sé líka í nál. að menn víkja að fæðispeningagreiðslunni og benda á að vilji sjómenn fá frekari leiðréttingu í einstökum greinum flotans séu kjarasamningar hinn eðlilegi vettvangur slíkra breytinga. Ég veit ekki til, kannske þekki ég ekki nógu vel til, a.m.k. er það ekki víða, að samningar séu gerðir milli útvegsmanna og sjómanna á smærri bátum en 12 tonn. En sjómenn á bátum undir 12 tonnum hafa fengið fæðisgreiðslu það ég best veit. (Gripið fram í: Hvaðan?) Ætli það sé ekki úr Aflatryggingasjóði án þess að ég vilji fullyrða neitt um það. Mér vísari menn kunna að vita betur. En ég hygg að það hafi verið þaðan. Það komst ekki á vegna kjarasamninga það ég best veit, enda hafa samningar ekki um það verið.

Ýmis önnur atriði eru áþekk þessum sem upplýsingar þyrfti að fá um, en fyrst og fremst vil ég vekja athygli á þessum þremur atriðum. Það er varðandi aflabrestinn, ef til hans kemur, varðandi það hvers vegna er verið að fella niður bara fæðisgreiðslur til trillukarla og í þriðja lagi er spurt um lífeyrissjóðinn, hvenær hann á að standa skil á greiðslum til annarra lífeyrissjóða. Svo má minna á það sem ég minntist á líka við 1. umr.: Eru menn alveg sannfærðir um að það eigi að slá því föstu að byggja sjávarútvegshús hér í Reykjavík? Telja menn það alveg hundrað prósent rétta staðinn? Ég er ekki á þeirri skoðun. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að því verði slegið föstu að hér verði byggt sjávarútvegshús. Ég hygg að út af fyrir sig mætti hafa þessa upphæð í krónum, en það ætti ekki að slá því föstu hvar byggingin ætti að rísa. Það eru ýmsir staðir sem gætu komið til greina aðrir en Reykjavík í þeim efnum án þess að ég sé á nokkurn hátt að lasta þetta svæði.