23.04.1986
Neðri deild: 100. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4595 í B-deild Alþingistíðinda. (4417)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta er að verða nokkuð sérkennilegt þinghald hér í dag. Það hefur verið talað um það á milli flokkanna að reyna að ljúka þinginu í dag og menn hafa reynt að haga vinnubrögðum sínum þannig, hafa m.a. hleypt í gegn umræðulítið ýmsum málum sem hefði þó verið full ástæða til að kanna betur. Talsmenn meiri hl. nefnda hafa jafnvel borið það fyrir sig, eins og hv. þm. Páll Pétursson, að það séu rök fyrir því að skoða mál ekki vel að þinginu sé að ljúka í dag. Nú gerist það hins vegar, svo merkilegt sem það nú er, að klukkan er að verða 5, en það var sá tími sem hafði verið reiknað með til þinglausna að ég hafði heyrt áður. Hins vegar er mér ekki kunnugt um að það hafi verið rætt við nokkurn mann, hvorki í stjórn né stjórnarandstöðu, alla vega ekki í stjórnarandstöðuliði, ekki Alþb. a.m.k., að þessari tímasetningu sé breytt. Samt eru menn enn með opna dagskrá í báðum deildum og mjög óljóst hvernig málum þokar fram.

Í Ed. eru óafgreidd tvö stórfrumvörp, annars vegar um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem verður að afgreiða áður en þinginu lýkur skilyrðislaust, og hins vegar frv. til l. um málefni Arnarflugs. Þar hafa menn sparað við sig ræðuhöld, sem þó hafa verið efni til, vegna þess að menn töldu að þeir væru að standa að því að greiða fyrir málum á hv. Alþingi. Nú virðist allt annað komið upp og formenn þingflokka stjórnarliðsins hafa hér í hótunum um mál með þeim hætti að það er algerlega ólíðandi. Ef það er ætlunin að halda áfram næstu daga og eftir helgi er eðlilegast, herra forseti, að fresta þessum fundi nú þegar og vera ekki að þreyta menn á löngum fundahöldum til viðbótar við það sem þegar er orðið.

Ég hef hins vegar hugsað mér að ljúka að sinni ræðu minni, þeirri sem ég hef kvatt mér hljóðs til að flytja, en ég vil biðja forseta að athuga hvenær ætlunin er að þinglausnir fari fram þannig að upplýsingar um það liggi fyrir á næsta hálftíma eða svo því að það er með öllu óþolandi að haga verkstjórn í þinginu með þeim hætti sem hér er gert núna.

Ég vil þessu næst víkja, herra forseti, að því frv., kartöflufrv. sem svo er kallað, sem hér er til umræðu. Og af hverju ætli það sé sem menn vilja ræða þetta kartöflufrv. ítarlega? Á því eru mjög einfaldar skýringar og eðlilegar. Sem sé þær að fyrr í vetur voru gerðir kjarasamningar sem byggðust á þeirri grundvallarforsendu að menn reyndu allt sem hægt væri til að halda niðri verðlagi. Ég var og er þeirrar skoðunar að það væri valt að treysta ríkisstj. í þeim efnum. Ég var og er þeirrar skoðunar að niðurfærsluþáttur aðgerðanna í vetur hafi í rauninni verið vafasamasti hlutinn af þeim efnahagsráðstöfunum sem þá voru ákveðnar vegna þess að það væri ekki aflað fjár með eðlilegum hætti til að standa undir þeim aðgerðum. Ég tel þess vegna að í ákvörðunum ríkisstj. í framhaldi af kjarasamningunum sé verið að vísa á verðbólgu í framtíðinni nema annað væri gert. Það er tvennt sem þessu veldur.

Í fyrsta lagi eru aðgerðir ríkisstj. ávísun á halla á ríkissjóði. Á því máli verður að taka og það er hætt við að það verði gert með því að magna hér upp verðbólguelda.

Í öðru lagi er ljóst að ef ekkert verður aðhafst í málefnum sjávarútvegsins verður þar um að ræða hallarekstur þegar kemur fram á þetta ár upp á 6-8- 9%. Einnig það getur verið ávísun á verðbólgu ef ekki er þegar í stað reynt að gera ráðstafanir til að styrkja stöðu framleiðslugreinanna þannig að það þurfi ekki að koma til móts við þær með gengislækkun eða öðrum hliðstæðum ráðstöfunum þegar líður á árið.

Horfandi á viðbrögð ríkisstj. í þessu efni standa menn á vakt í sambandi við hluti eins og þá sem hér er verið að ræða, líka þegar það gerist að hæstv. fjmrh. hækkar framfærsluvísitöluna með einu pennastriki í gær um 0,24%. Það er hinn mikli hugmyndafræðilegi leiðtogi þjóðarsáttarinnar sem þannig gengur fram fyrir skjöldu. Og auðvitað hefur þetta áhrif. Bensínlækkunin, sem jafnvel ríkisstj. hefur verið að hrósa sér af, sem er ekki hróss verð vegna þess að það eru OPEC-ríkin sem þar ráða en ekki hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson, er að renna út í sandinn út af ákvörðun fjmrh. Sjálfstfl. Auðvitað segja menn sem svo þegar svona frv. kemur frá hæstv. landbrh.: Á hér að fara að hækka? Á hér að fara að hækka landbúnaðarvörur, kartöflur og vörur unnar úr kartöflum, með þeim hætti sem hér er heimilt í raun eins og textinn lítur út? Hins vegar hefur hæstv. forsrh. verið svo vinsamlegur að lýsa því yfir að jafnvel þó að frv. verði samþykkt sem lög beri ekki að taka mark á því. Það sé ástæðulaus ótti. Það ber að fagna þessari nýjung sem aftur og aftur er gripið til í löggjafarstarfi þegar menn í stjórnarliðinu eru í kastþröng á hv. Alþingi.

Auðvitað er það svo, herra forseti, að 200% hækkun á þeim vörum sem hér er verið að tala um hefur verðlagsáhrif. Hvað vega kartöflur og kartöfluvörur í vísitölunni? Þær upplýsingar hafa ekki komið fram hér, en þær vega 0,46% í vísitölu framfærslukostnaðar. 200% hækkun á þeim vörum, ef það eitt gerðist, vegur 0,92%. Þannig lítur þetta mál út og þegar ríkisstj. er farin af stað með verðhækkanir eins og gerðist í gær taka menn við sér þegar svona verðhækkunartillaga kemur hér og menn spyrja og fara yfir málin og knýja fram yfirlýsingar frá hæstv. forsrh., eins og hefur verið gert í umræðunum í dag.

Það má svo deila um hvort það er rétt, sem hér er fullyrt, að þetta frv. sé í andstöðu við stjórnarskrána. Ég hygg reyndar að svo sé ekki. Ég hygg að það séu fjöldamörg dæmi um löggjöf og lagasetningu varðandi skatta og gjöld þar sem menn hafa kveðið mjög svipað að orði og hér er gert. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.“

Ég hygg að þrátt fyrir þetta ákvæði höfum við mjög mörg dæmi um að lög hafi verið sett með tiltölulega rúmar heimildir fyrir ráðherra til ákvörðunar eins og hér er gerð tillaga um. Þetta er ég að segja til skýringar vegna þess að ég tel ekki að hér sé um það að ræða að hv. Ed. eða aðrir sem að þessu standa séu hér með tillögu um stjórnarskrárbrot. Mér finnst mjög mikið í lagt að bera það hér fram nema þá að flutt séu víðtækari rök í þeim efnum.

Því er einnig haldið fram af hv. 5. þm. Reykv. að hér sé ekki um að ræða brot á alþjóðlegum samningum. Það er vitnað í viðskrn. í þeim efnum og sagt sem svo að þetta sé ekki brot á samningum EFTA og Efnahagsbandalagsins. Ég vil segja það af reynslu, herra forseti: Ef viðskrn. finnur ekki meinbugi á máli af þessu tagi eru þeir ekki til því að viðskrn. á Íslandi er yfirleitt kaþólskara en páfinn í þessum efnum og gengur lengra í því að finna meinbugi á svona málum en góðu hófi gegnir að mínu mati. Hins vegar er ljóst að hér er um að ræða mál sem fer í bága við anda „standstill“-samkomulagsins sem gert hefur verið innan GATT meðan GATT-samningurinn er í endurskoðun. Sá samningur hins vegar, þetta sérstaka undirsamkomulag, „standstill“-samkomulagið, hefur ekki sama gildi sem alþjóðasamningur og GATT-samningurinn sjálfur vegna þess að „standstill“-samkomulagið er um vinnureglur meðan unnið er að endurskoðun GATT-samningsins í heild.

Ég verð þess vegna að hryggja hv. 5. þm. Reykv. með því að ég sé ekki að hér sé um að ræða þau tilefni til stórkostlegrar gagnrýni varðandi stjórnarskrána og alþjóðlega samninga sem nefnt hefur verið, en ég er 100% sammála honum um að það er skylda okkar á hv. Alþingi að vera á verði þegar mál af þessu tagi koma upp. Það er engin ástæða til að treysta þessari ríkisstj. Það er engin ástæða til að treysta henni og slá því alveg föstu að það sem hún segir hljóti að standa. Reynslan sýnir annað og það er eins gott að vera á vakt og passa þetta lið.

Ég tel, herra forseti, þrátt fyrir það sem síðast var sagt af minni hálfu, að yfirlýsing forsrh. í þessu efni skipti ákaflega miklu máli. Ég sé hins vegar ekki alveg hvernig á að framkvæma hana. Ég sé ekki með góðu móti hvernig það getur gerst að lagt sé á gjald sem hækkar vöruverð án þess að það hafi áhrif til hækkunar á vísitölu nema gjaldið sé tekið og það notað til að greiða niður vörutegund sem vegur þá 100% jafnþungt í vísitölunni. Þannig ganga vísitölumælingar ekki fyrir sig. Það gerist ekki þannig heldur hefur þetta verðhækkunaráhrif á einum tímanum og verðlækkunaráhrif á öðrum tíma. Það er ekki bæði um að ræða verðlækkunar- og verðhækkunaráhrif á sama tíma á annars vegar innfluttu og hins vegar innlendu efni. Ég hygg því að þrátt fyrir þessa yfirlýsingu, sem ég met mikils, frá hæstv. forsrh. sé býsna erfitt að tryggja að hér verði útkoman 0 eins og hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir að eigi að verða í framfærsluvísitölunni. En þá vil ég bæta því við: Ef það dugir ekki sem hér er gerð tillaga um, þ.e. ef fullur jöfnuður næst ekki með þeim peningum sem frv. fjallar um, lít ég svo á að yfirlýsing forsrh. þýði að það eigi að taka viðbótarfé af öðru niðurgreiðslufé til þess að dæmið verði 100% slétt. Ég sé að aldursforseti þingsins, hv. formaður landbn., tekur undir þetta og ég met það einnig mikils.

Ég tel þess vegna, herra forseti, að það eigi að taka yfirlýsingu forsrh. gilda, en vegna þess hvað ég hef takmarkaða trú á þessari stjórn yfirleitt mun ég sitja hjá við meðferð þessa máls hér á eftir eða í næstu viku eftir því hvenær forustu þingsins þóknast að hafa þinglausnir.