13.11.1985
Efri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að ræða þetta plagg, þetta frv. til lánsfjárlaga, efnislega við 1. umr. einfaldlega vegna þess að stórar tölur í fjármálum ríkisins eru á ferð og flugi þessa dagana. Ég tel ekki vera raunverulegar forsendur til efnislegrar umræðu hér og nú. Við getum vissulega efnt hér í hv. Ed. til almennra pólitískra umræðna um hvernig fjármálum ríkisins væri best háttað, en efnisleg, vitræn umræða um þetta frv. til lánsfjárlaga er ekki möguleg eins og ástandið er nú í fjármálum og áætlanagerð ríkisins.

Ég kem hér í stólinn fyrst og fremst til að benda á vinnubrögð sem sífellt eru að færast í aukana hér á hæstv. Alþingi og það eru þau vinnubrögð að ætlast er til þess af hæstv. ríkisstj. að mál séu unnin í auknari mæli í nefndum þingsins en áður hefur tíðkast.

Fyrir fáeinum vikum mælti hæstv. dómsmrh. fyrir frv. til umferðarlaga sem einnig var flutt á síðasta þingi og var því endurflutt. Þetta er stór og mikill lagabálkur í mörgum greinum og um hann höfðu borist á síðasta þingi mjög viðamiklar umsagnir á tugum blaðsíðna. Það kom á daginn við umræðu þess máls að dómsmrn. hafði ekkert gert til þess að endurskoða þennan lagabálk á milli þinga. Hann var lagður fram óbreyttur á þessu þingi og til þess ætlast að hv. allshn. Ed. ynni það verk sem með réttu hefði átt að vinna í ráðuneytinu.

Mér sýnist sömu vinnubrögð vera upphöfð hér og nú í fjármálum ríkisins. Hæstv. fjmrh. lét þess getið í lok ræðu sinnar hér áðan, þegar hann mælti fyrir þessu lánsfjárlagafrv., að hann vonaðist til þess að þetta mál ynnist vel í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Nú er það svo að í þeirri nefnd er afskaplega góður vinnuandi og henni vel og röggsamlega stjórnað af hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni þannig að ekki er það það sem gæti staðið því máli fyrir þrifum, heldur það að við fáum hér í hendurnar frv. sem við megum gera ráð fyrir að þurfa að taka upp í nokkrum grundvallaratriðum.

Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það og allri ríkisstj.þm. eru ekki í vinnumennsku hjá hæstv. ríkisstj., a.m.k. ekki stjórnarandstöðuþingmennirnir. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og set fram þá lágmarkskröfu að fá málin í sæmilegu ástandi til meðferðar í nefndum þingsins.