14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

45. mál, leit að brjóstakrabbameini

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svör hennar og viljayfirlýsingu. Ég vil vekja athygli á því að þetta er algengasti illkynja sjúkdómur meðal kvenna og tíðnin eykst stöðugt. Á Íslandi greinast nú um 70-90 konur á hverju ári. Þrettánda hver kona fær þennan sjúkdóm á lífsleið sinni. Bætt meðferð síðustu ára hefur því miður ekki aukið batahorfur verulega, en úrslitaþýðingu virðist hins vegar hafa stærð æxlis við greiningu og hvort það hefur náð að breiðast út. Lítil æxli og staðbundin bjóða upp á bestu batahorfur. Öruggasta aðferð til að finna slík æxli á byrjunarstigi er einmitt röntgenmyndataka af brjóstum.

Ég vil leggja mikla áherslu á að við verðum að fara að hafa efni á því að beita fyrirbyggjandi aðgerðum. Það er ábyrgðarhlutverk að bíða. Það deyja nú þegar 25 konur af þessum sjúkdómi árlega. Og ég vil í þessu sambandi minna á forvarnarverkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem fyrrv. heilbrmrh. undirritaði fyrir Íslands hönd í fyrra. Þetta er samvinnuverkefni Evrópuþjóða um varnir gegn ýmsum sjúkdómum, m.a. krabbameini.

Ég vil enn fremur ítreka að heilbrigðisþjónusta nútímans og framtíðarinnar ekki síður stefnir sífellt meira frá því að vera dýr viðgerðarþjónusta í þá átt að koma í veg fyrir sjúkdóma með fræðslu og heilsugæslu eða að greina og meðhöndla á byrjunarstigi.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði. Nauðsynlegur tækjabúnaður, sem þarf við þessa leit, hefur þegar verið gefinn. Húsnæði eða aðstaða er enn fremur þegar fyrir hendi hjá Krabbameinsfélaginu þannig að hlutur ríkisins er ekki stór. Það er einungis að leggja fram rekstrarfé. Og ég vil minna á að kostnaðurinn sem þessi hópskoðun jafngildir er það sem kostar að reka um 5- 10 sjúkrarúm á ári. Það er ekki meira.

Enn fremur vil ég leggja mikla áherslu á það í sambandi við heilsugæslu og fyrirbyggjandi aðgerðir að í sumar eða haust var sú breyting gerð að konur sem koma í leghálskrabbameinsleit greiða nú fullt gjald fyrir slíka skoðun, sem mun nema allt að 670 kr., í stað 200- 300 kr. áður. Ég vil jafnframt leggja ríka áherslu á það að þetta hefur þegar leitt til þess að dregið hefur úr aðsókn. Þetta er mjög alvarlegt þegar um fyrirbyggjandi heilsugæsluaðgerðir er að ræða. Ég vil því ekki bara skora á hæstv. ráðherra. Ég vil höfða til hennar að hún beiti sér fyrir því að fjárveiting fáist fyrir þessu verkefni því að það er alls ekki dýrt.