14.11.1985
Sameinað þing: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

Hafskip og Útvegsbankinn

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. hefur flutt hér langt mál og auglýst mjög rækilega að hann mundi tala hér í dag utan dagskrár, bæði í ríkisfjölmiðlum og sérstaklega í stærsta dagblaði landsins sem birtir ítarlegt samtal við þm. um að hann muni opna sinn munn í dag utan dagskrár. Þetta er mjög eftirtektarvert út af fyrir sig og sjaldan sem menn benda svo rækilega á sjálfa sig til þess að það sé eftir tekið, enda stendur sjaldan á sjónvarpinu að mæta þegar þessi hv. þm. hefur upp raust sína sem og nokkrir aðrir úr hans þingliði.

Þegar hv. þm. hafði fyrst samband við mig í fyrradag um það að vilja ræða þessi mál utan dagskrár á Alþingi sagði ég við hann, sem ég mun koma betur að síðar, að þessi mál væru á mjög viðkvæmu stigi og ég teldi ekki mikið gagn að því að ræða þau hér á Alþingi, en benti honum á að bíða fram í næstu viku eða leggja fram beiðni um skýrslu í sambandi við þetta mál allt. Það vildi hann ekki því að það lá mikið á. Hér hefur hann lagt fram nokkrar spurningar til mín sem hann fékk forseta Sþ. í gær og sagði mér frá. Þeim ætla ég að leitast við að svara. Hins vegar held ég að hann sé búinn að leggja fram nokkra tugi annarra spurninga, m.a. hvernig skuldastaða eins fyrirtækis hafi verið á hverjum tíma við bankann þegar tiltekinn maður hafi verið þar í bankaráði. Þó að ég væri allur af vilja gerður og hefði starfað um langt skeið í Útvegsbankanum gæti ég ekki svarað þeirri spurningu nema fara inn í bankann og vinna að slíku svari sem og svari við ótalmörgum öðrum fsp. frá þessum hv. þm.

Skuldamál Hafskips hafa lengi verið vandamál fyrir Útvegsbankann. Í fyrsta lagi vegna þess að það voru há lán lengi vel og hefur nokkrum sinnum verið um þau fjallað í skýrslum bankaeftirlitsins á liðnum árum. Eftir endurskipulagningu félagsins 1979 og aukningu hlutafjár fóru hagur félagsins og umsvif vaxandi allt til ársins 1984, en þá versnaði afkoma Hafskips verulega. Voru málefni þess nokkrum sinnum rædd á fundum bankastjórnar Seðlabankans og Útvegsbankans og taldi bankastjórn Útvegsbankans þá vonir standa til þess að ráðstafanir Hafskips mundu nægja til að tryggja hag félagsins og hagsmuni Útvegsbankans, en þar var m.a. um að ræða aukinn rekstur á erlendum flutningsleiðum og aukningu hlutafjár.

Í júnímánuði á þessu ári fékk Seðlabankinn skv. beiðni upplýsingar um stöðu Hafskips gagnvart Útvegsbankanum, sem dagsettar voru 3. júní, en þar kom fram að nokkuð vantaði til þess að tryggingar bankans nægðu fyrir heildarskuldbindingum Hafskips gagnvart bankanum að meðtöldum víxlum vegna annarra ábyrgða. Í framhaldi af þessari skýrslu var bankaeftirlitinu falið að gera athugun á viðskiptum Hafskips við Útvegsbankann og í skýrslu um málið, sem dagsett var 25. júlí, en hún var síðan send viðskrh. til upplýsingar með bréfi dags. 30. júlí, kom fram að tryggingastaða bankans var mun veikari en talið hafði verið. Ljóst var þó að málið þyrfti mun nánari athugunar við, einkum að því er varðaði möt á eignum sem bankinn hefur veð í.

Að lokinni frekari gagnaöflun um það mál voru endurskoðaðar tölur sendar ráðuneytinu með bréfi dags. 9. sept. s.l., en þar kom fram enn frekari rýrnun á tryggingum Hafskips gagnvart Útvegsbankanum. Jafnframt hafði bankaeftirlitið þá hafist handa um upplýsingasöfnun um skuldbindingar stærstu lánþega bankans og var ítarlegri skýrslu um það efni lokið um miðjan október s.l. Í skýrslunni er gerð grein fyrir stöðu þessara lánþega gagnvart bankanum miðað við 30. júní, en grein er gerð fyrir stöðu Hafskips allt fram til 30. október. Skýrsla þessi var afhent mér sem viðskrh. 22. október s.l., en degi síðar bankastjórn Útvegsbankans.

Rétt er að taka fram að allan þann tíma sem athuganir þessar stóðu yfir fylgdist bankastjórn Útvegsbankans með framvindu þeirra og lögð var af hálfu Seðlabankans áhersla á að allra leiða yrði leitað til að ráða bót á þeim mikla og vaxandi vanda sem Útvegsbankinn stóð frammi fyrir vegna fallandi verðgildis þeirra trygginga sem bankinn hafði frá Hafskipi hf. og vegna hækkandi skulda fyrirtækisins við bankann. Seðlabankanum var kunnugt um þær viðræður, sem stofnað var til í þessum tilgangi milli Hafskips hf. og Eimskipafélags Íslands hf., og þátttöku Útvegsbankans í þeim viðræðum. Einnig var málið rætt við viðskrh., þar á meðal á sameiginlegum fundi hans og bankastjórnar Seðlabankans og Útvegsbankans snemma í september. Eftir að ég tók við embætti viðskrh. hef ég rætt við fulltrúa frá Útvegsbankanum. Sömuleiðis hafa fulltrúar frá Eimskipafélagi Íslands óskað eftir því að skýra stöðu sinna mála og hafa þeir fundir allir verið mjög gagnlegir.

Ég get mjög vel skilið áhyggjur þeirra sem eiga fjármuni inni í banka sem er þannig kominn inn í umræður í fjölmiðlum, en ég vil í tilefni af þeim skrifum og í tilefni af fsp. hv. síðasta ræðumanns um málefni Útvegsbanka Íslands vekja athygli á ákvæðum 2. gr. laga nr. 12 frá 29. mars 1961, um útvegsbanka Íslands, en þar segir m.a.:

„Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Útvegsbanka Íslands.“

Þetta lagaákvæði tryggir sparifjáreigendur og aðra kröfuhafa sem eiga kröfur sínar á hendur bankanum fulltryggðar og geta krafist þess að við þær verði staðið.

Ég vil líka í sambandi við þetta minna á lögin um viðskiptabanka sem afgreidd voru hér í júnímánuði á þessu ári og hv. fyrirspyrjandi gerði nokkuð að umræðuefni. Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, og var einnig tekið undir það atriði af minni hl. fjh.- og viðskn., að hann væri sammála því, segir, jafnframt því sem frsm. nefndarinnar Þorsteinn Pálsson gerði grein fyrir þegar hann fylgdi nál. úr hlaði:

„Í nefndinni hefur verið rætt um hvernig beri að skýra síðari málslið 2. málsgr. 2. gr. frv. sem fjallar um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna. Í álitsgerð, sem dr. Ármann Snævarr, fyrrv. hæstaréttardómari, ritaði um lagaheimild ríkisbankanna til lántöku erlendis, skýrir hann þetta ákvæði. Er niðurstaða hans sú að ákvæði þetta feli í sér takmörkun á ábyrgð ríkissjóðs að því er varðar lántökur ríkisviðskiptabanka erlendis þegar lagaheimild til lántöku liggur ekki fyrir og lán eru tekin án þess að hlutaðeigandi banki veiti tryggingu í sjálfs sín eigum.“

Þetta álit á við gildandi bankalöggjöf um þessa banka og áfram verður það gildandi þegar sú löggjöf tekur gildi sem hv. fyrirspyrjandi gerði nokkuð að umræðuefni. Síðar segir í nál.:

„Nefndin tekur undir þessa skýringu dr. Ármanns og telur jafnframt að erlendar lántökur ríkisviðskiptabanka séu háðar ákvæðum 12. gr. laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, sbr. þó 10. gr. sömu laga.“

Frá því í júnímánuði og fram í október, mig minnir að það sé til 9. okt. á þessu ári, hefur mat á veðum bankans í Hafskipi rýrnað yfir 20% . Þetta sýnir betur en nokkuð annað hversu ör þessi rýrnun hefur verið og það er vegna þess fyrst og fremst að kaupskip almennt í heiminum hafa fallið mjög í verði og sérstaklega þegar þau eru komin nokkuð til ára sinna. Það mál deila um hvort það hafi verið rétt á sínum tíma að lána svo mikið frá þessum banka þessu fyrirtæki eða öðrum, en um hitt verður ekki deilt að það voru tryggingar fyrir hendi fram á þetta ár. Það er talið af þeirri skýrslu sem fyrir liggur að þetta hafi breyst mjög á síðustu mánuðum ársins 1984. Bæði verða kaupskipaútgerðir í landinu fyrir verulegum skakkaföllum vegna gengislækkunar, vegna verkfalla á síðasta ársfjórðungi ársins 1984 og þar við bætist svo sú mikla rýrnun sem hefur orðið á verðgildi kaupskipa. Það á ekki við eingöngu um þetta félag heldur öll önnur, bæði utanlands og innan. En kannske er rýrnun einna mest þarna vegna þess að þetta félag á ekkert af nýjum skipum, en rýrnun þeirra hefur orðið minni en annarra.

Ég furða mig ekkert á því að ekki sé hægt að fá upplýsingar frá bankaráðsmönnum, bankastjórum og öðrum starfsmönnum viðskiptabanka um skuldir einstakra fyrirtækja, hvort sem það er þetta fyrirtæki eða annað, því að í lögum sem hæstv. Alþingi hefur sett, lögum frá 1961, segir í 17. gr.:

„Bankaráð, bankastjórar og allir starfsmenn bankanna eru bundnir þagnarskyldu um allt það er snertir hagi viðskiptamanna bankans og þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Eigi mega bankastjórar né starfsmenn vera skuldskeyttir bankanum, hvorki skuldunautar né ábyrgðarmenn annarra.“

Í nýju lögunum, sem afgreidd voru í lok síðasta þings og taka gildi um næstu áramót, er þessum ákvæðum haldið við því að það segir í 25. gr. þeirra laga:

„Bankaráðsmenn, bankastjórar og aðrir starfsmenn viðskiptabanka eru bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna bankans og um önnur atriði, sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.“

Þetta er í nýju lögunum. Það er því engin furða að menn fái ekki tölulegar upplýsingar í þessu máli.

Og nú vil ég koma að því sem ég tel mikils virði. Það er það hvernig til tekst. Hv. þm. spyr: Hvert verður tap bankans? Ég held að enginn geti svarað þessari spurningu á þessari stundu. Það fer eftir ýmsu. Það fer eftir því hvort fyrirtækið verður tekið til gjaldþrotaskipta. Þá verður tap bankans vafalaust mjög mikið. Ef samningar nást við annan aðila, t.d. Eimskipafélag Íslands eða einhvern annan, verður tapið mun minna. Ég þori að segja að ljóst er að það verður nokkurt tap, en í svo stórum rekstri eru aldrei öll kurl komin til grafar fyrr en uppgjör fer fram. Við skulum vona að það versni ekki, en þó má alltaf búast við því, þegar rekstrarstaða er erfið, að þá geti alltaf eitthvað nýtt komið upp á. Þess vegna held ég að það sé ekkert fengið með því að fara að kasta fram einhverjum tölum sem enginn getur staðið við á þessu stigi.

Menn spyrja: Af hverju er Eimskipafélag Íslands að hugsa um þetta? Eru stjórnvöld að þrýsta á Eimskipafélag Íslands? Ég vil lýsa því hér yfir að ríkisstj. hefur enga ástæðu til að þrýsta á stjórn Eimskipafélags Íslands að kaupa eignir Hafskips fyrir milligöngu Útvegsbankans. Ríkisstjórn Íslands ætlast auðvitað til þess að bæði Útvegsbankinn og stjórn Eimskipafélags Íslands geri það upp við sig hvort það sé álitið hagkvæmt að fara út í þessi kaup eða ekki. Þess vegna er málið nú á mjög viðkvæmu stigi. Hins vegar get ég auðvitað látið í ljós mína skoðun. Ég tel að Eimskipafélag Íslands ætli ekki að auka við sinn flota ef úr kaupum verður. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það verður um sölu á skipunum að ræða. Þar með fær Eimskipafélag Íslands betri nýtingu á sínum skipum og betri viðskiptaaðstöðu ef úr kaupum verður.

Þann tíma sem ég hef haft þetta mál sem viðskrh. til upplýsingar hef ég notað vel til þess að ræða við alla aðila og þar með Seðlabankann og bankaeftirlitið sem ég hef þegar skýrt frá hvernig unnið hefur. Ég tek líka fram að ég tel eðlilegt að bankaeftirlitið fylgist einnig með öðrum bönkum, bæði ríkisbönkum og einkabönkum, kanni skuldir fyrirtækja og hvernig hagur fyrirtækja er. Við vitum að á mjög breytilegum tímum breytast mjög tryggingar banka sem og allar tryggingar og það hefur gerst fyrst og fremst í þessu máli. En samhliða þessu hefur orðið geysilegur samdráttur í flutningum. Inn í þetta mál koma flutningar sem áður voru fyrir varnarliðið t.d. Hérna er um margar samverkandi aðgerðir að ræða.

Þá kem ég að spurningunni: Hverju þjónar það á þessu stigi að brjóta allar fyrri hefðir og romsa hér upp úr sér skuldum og eignum, mati sem er að breytast frá degi til dags og segja við þjóðina: Þetta er allt ein kaos, við getum ekki staðið að neinu-eða vill fyrirspyrjandi eða einhver annar að viðskrh. og Seðlabanki láti bara loka þessum banka? Það er ekki svo einfalt mál og það yrði gífurlegt áfall fyrir þjóðina ef þessi banki riðaði til falls. Þessi banki hefur þjónað atvinnuvegunum alveg frá stofnun og það mjög vel að mínum dómi. Hann hefur oft orðið að taka á sig skakkaföll fyrr. Það hafa aðrir bankar líka þurft að gera. Ef þessi banki hættir starfrækslu er eftir að leysa erfitt og mikið mál. Hvar á að koma öllum þeim viðskiptamönnum fyrir sem eru þar núna í viðskiptum og hafa verið jafnvel í tugi ára? Það er ekkert auðvelt að koma þeim öllum inn í hina bankana, sem fyrir eru, sem þykja sínar skuldbindingar ærið nógar. Við skulum taka einn blómlegasta útgerðarstað landsins, Vestmannaeyjar. Þessi banki hefur verið aðalviðskiptabanki Eyjamanna frá upphafi og er með svo að segja yfirþyrmandi meiri hluta af öllum viðskiptum. Það væri það sama og að leggja þann stað niður ef Útvegsbankinn hætti starfrækslu.

Vandinn er því miklu meiri en svo að við getum rætt hann til hlítar á Alþingi Íslendinga eða í blöðunum. Við leysum ekki viðkvæm eða erfið mál nema með samtölum þar sem menn geta talast við í trúnaði. Á þessari stundu leyfi ég mér ekki að fullyrða hver verður niðurstaðan af þessu máli vegna þess að ég veit það ekki, en það væri innileg ósk mín að það tækjust samningar um kaup á þessum eignum þannig að eiginfjárstaða Útvegsbankans yrði fyrir sem minnstum skaða.

Hitt er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það er sjáanlegt að Útvegsbankinn verður fyrir fjárhagslegu skakkafalli, en á þessari stundu treysti ég mér ekki, eins og ég sagði áðan, að nefna neina upphæð. Ég held að það sé það besta sem við gerum í þessu að leita þeirra leiða sem nú er verið að leita að og reyna að bjarga því sem bjargað verður.