21.10.1985
Neðri deild: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

52. mál, þingsköp Alþingis

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og kunnugt er hafa ekki allir þingflokkar nægilegan þingstyrk til setu í öllum nefndum þingsins. Við upphaf þessa kjörtímabils virtist sá skilningur ríkjandi að rétt væri og sanngjarnt að auðvelda þessum þingflokkum aðgang að öllum upplýsingum eins og frekast væri unnt, m.a. með því að veita þeim áheyrnaraðild sem ekki hefðu fullgilda aðild. Hins vegar var samdóma álit allra þá að því ég best veit að um fjvn. gegndi öðru máli. Lögunum var því breytt haustið 1983 á þann veg að í fjvn. sætu tíu manns.

Vegna nýrra þingskapalaga kom þetta mál aftur upp í upphafi þessa þings og kom mér svolítið á óvart að breytingin, sem ráðgerð er í fyrirliggjandi frv. á þskj. 52, virtist ekki eiga jafnvíðtækan hljómgrunn og fyrir tveimur árum þrátt fyrir nákvæmlega sömu forsendur. Að mínu viti hlýtur það að vera kappsmál allra lýðræðislega hugsandi valddreifingarsinna, eins og flestir vilja nú kalla sig að manni skilst, að tryggja svo sem frekast er unnt að sjónarmið sem flestra fái að njóta sín. Auk þess er markmiðið ekki eingöngu að auðvelda viðkomandi þingflokkum störf heldur einnig að auðvelda þingstörfin í heild og veitir nú ekki af að margra áliti. Allt þetta hljóta þingmenn að skilja hvort sem þeir eru í litlum eða stórum þingflokkum. Ég get lofað hv. 9. landsk. þm. og fleiri sem eru sama sinnis því að ég mun alltaf styðja alla flokka í því að koma sjónarmiðum á framfæri þegar á þarf að halda.