19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

94. mál, vímuefnasjúklingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. var svohljóðandi:

„Hefur ríkisstj. gert áætlun um læknisaðstoð og meðferðarúrræði fyrir þá sem hafa ánetjast vímuefnum?"

Þeir sem leita aðstoðar vegna vímuefnanotkunar, hvort sem um er að ræða áfengi eða önnur vímuefni, fá læknismeðferð og aðra þjónustu annars vegar á geðdeildum ríkisspítalanna og hins vegar á Vogi, áfengismeðferðardeild SÁÁ.

Langmestur hluti vímuefnaneytenda sem leita læknishjálpar er ofneytendur áfengis og margir þeirra hafa einnig neytt ólöglegra efna. Á síðustu 4-5 árum hefur sjúkrarými fyrir þessa tegund sjúklinga aukist mjög verulega og hefur bæði komið til hin nýja geðdeild Landspítala með göngudeild og legudeild og hið nýja húsrými í sjúkrastöðinni í Vogi þar sem nú eru legurými fyrir 60 sjúklinga.

Enginn einstakur þáttur innan heilbrigðisþjónustunnar hefur vaxið jafnört hin síðustu 5-6 ár og meðferðarmöguleikar vímuefnaofneytenda og segja má að það sé ekki lengur forgangsverkefni að auka rými fyrir áfengissjúklinga svo að dæmi sé nefnt um það.

Hins vegar hefur það verið forgangsverkefni nú um nokkur ár að fá sérstaka unglingageðdeild. Á fjárlögum ársins er einmitt heimild til makaskipta á jörðinni Úlfarsá í Mosfellssveit og húsnæði barnageðdeildar við Dalbraut, en leigusamningur þar rennur út um miðjan næsta mánuð. Takist þessi kaup var það hugmynd ráðuneytisins að setja í þessu húsnæði á stofn unglingageðdeild. Slík deild mundi að sjálfsögðu vista þá sem eru geðveikir sökum ofneyslu vímuefna eða ef þeirra sjúkleiki tengist vímuefnanotkun á einhvern hátt. Það mundi að sjálfsögðu verða til verulegra bóta í þessu efni og mundi fást læknismeðferð sem þessi aldursflokkur þyrfti mjög á að halda.