19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

98. mál, þátttaka Íslands í vísindasamstarfi Evrópuþjóða

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er alveg óhjákvæmilegt að ég eigi hér hlut að máli - raunar hefði þessi fsp. átt frekar heima hjá mér en hæstv. forsrh. En ég sótti fund norrænna menningarmálaráðherra í Kaupmannahöfn, 30. október hygg ég að það hafi verið, eins dags fund sem boðað var til af menntmrh. Dana, Bertel Haarder, þar sem þessi mál voru sérstaklega rædd og með hvaða hætti Norðurlandaþjóðirnar stæðu að verki. Nokkru áður hafði ég lesið mér til um þetta mál, Eureka-málið, og hafði þá skrifað bréf til utanrrn. þar sem ég óskaði eftir að gerð yrði athugun á með hvaða hætti við gætum verið aðilar að Hannover-ráðstefnunni um málið.

Á þessum fundi með menntmrh. Norðurlanda var málið reifað og þar varð það niðurstaðan að ég óskaði eftir því við danska ráðherrann sérstaklega að hann sæi okkur fyrir öllum upplýsingum um niðurstöður Hannover-ráðstefnunnar, sem ég vænti hvern daginn sem líður, en Haarder, hinn danski menntmrh., hefur verið í heimsókn í Bandaríkjunum þessa dagana. Það varð niðurstaðan að ekki var sótt fast eftir því að við ættum fulltrúa á Hannover-ráðstefnunni en haft var samband við sendiráð okkar í París um málið þannig að fylgst er með þessu. Og eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram náðu Finnar þátttöku og það er mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að halda vöku sinni í þessu efni.

Það var um það rætt á þessum ráðherrafundi að við e.t.v. kæmum til þessara skjala með þeim hætti að beita stofnunum okkar sem fyrir eru í málinu, eins og Norræna iðnþróunarsjóðnum, ekki Íslenska iðnþróunarsjóðnum, heldur hinum norræna, og það er vissulega mjög athyglisvert fyrir okkur þar sem hér er um mjög mikinn kostnað að tefla við hin ýmsu rannsókna- og þróunarverkefni sem yrðu okkur einum ofviða, en með þeim hætti - eins og menn hafa fitjað upp á - með þessum hætti gæti það orðið mjög álitlegt. Og víst er um það að þessi rannsókna- og þróunarsamtök sem verið er að stofna til, við þurfum að ná aðild að þeim því að hér er um eitt mikilvægasta málefni að tefla vegna t.d. hinnar miklu upplýsingatækni, örtölvubyltingar og alls þess sem bíður okkar. (Forseti hringir.) - Þessi umræða hefði verið alveg ónýt ef ég hefði ekki fengið að gera þessa athugasemd, hæstv. forseti. (Forseti: Umræðan á að vera þannig að það sé gagn að hverri einustu ræðu.)