26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

50. mál, rannsóknir við Mývatn

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Athugasemdin skal vera örstutt, einungis til þess að leiðrétta tvennt sem mér fannst koma fram í máli hv. fyrirspyrjanda.

Annað varðaði hugsanlega málsókn á hendur iðnrn. Það er mikill misskilningur að ég hafi hvatt til þess. Það er vegna þess að sakarefni er ekki fyrir hendi. Það þarf að vera tiltekið efni sem stefnt er til dómstóla út af. Það liggur ekki fyrir nú. Það sem var verið að ræða um var hvað gæti hugsanlega gerst í framtíðinni.

Það sem svo gerðist í framhaldi af þessu var það að reynt var af hálfu beggja ráðuneyta að ná samkomulagi um þau atriði sem ella gætu orðið tvísýn eða vafi um síðar og ég tel að það hafi tekist. Það náðist samkomulag um staðarmörk kísilgúrvinnslunar á þann veg að báðir aðilar gátu við unað. Enn fremur hefur náðst samkomulag um samstarf þessara nefnda.

Þetta var það sem máli skipti af hálfu Náttúruverndarráðs og fyrrverandi menntmrh. Ég hygg því að þessi fyrirspurn sé kannske ekki rétt tímasett. Ef hún hefði komið fram þegar enn þá meiri vafi var um málið hefði kannske gegnt öðru máli, en núna er í raun og veru niðurstaða fengin um það sem fyrirspyrjandinn er að leita eftir.