26.11.1985
Neðri deild: 20. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hver var megintilgangur með þeirri endurskoðun á samningum ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium að því er varðar skattamál ÍSAL. Um það segir í grg.:

„Hefur endurskoðun þessi beinst að framleiðslugjaldi ÍSALs og haft þann megintilgang að gera reglur um framleiðslugjaldið skýrari og öruggari í framkvæmd, þannig að síður verði hætta á deilum í því efni, og tryggja eðlilegar skatttekjur af starfsemi félagsins.“

Þetta var megintilgangurinn. Því næst er kveðið nánar á um með hvaða hætti það er gert og aðalbreytingarnar eru þessar:

Í fyrsta lagi er samið um nýja tilhögun á framkvæmd þeirra reglna er fjalla um mat á hráefniskostnaði álbræðslu og verðlagningu afurða hennar með tilliti til skatts. Og þetta er gert með eftirfarandi aðferðum:

a. Tekin er upp ný skilgreining á heimsmarkaðsverði á áli.

b. Kostnaðarverð ÍSALs á súráli verður metið til skatts eftir ákveðnu vöruskiptahlutfalli milli súráls og áls þannig að verð hverrar einingar af súráli verður 12,50% af sömu einingu af áli á heimsmarkaðsverði.

Í þriðja lagi eru ákvæði sem varða kostnaðarverð ÍSALs á rafskautum, en það verður ákveðið til skatts skv. samningsbundnu verði milli Alusuisse og ÍSALs á viðkomandi ári með þeim fyrirvara að það verð sé ekki hærra en meðalverð í sölu Alusuisse á rafskautum til þriðja aðila. Loks er þarna um að ræða endurskoðunarákvæði.

Annað meginatriðið varðar síðan reglur um fyrningar á fastafjármunum. Þar er einkum athyglisvert að við fyrninguna verður tekið tillit til endurmats, en fyrning gengistaps af lánum fellur niður. Skv. þessum nýju reglum hins vegar verða afskriftir frá ÍSAL lægri en ella næstu árin en hærri þegar frá líður og þegar afskriftastofn hækkar. Til þess að vega upp á móti þessu er kveðið á um með samkomulagi aðila að Alusuisse leggi fram nýtt eigið fé til ÍSALs á yfirstandandi ári sem nemur um 1700 millj. kr. Það verður til þess að lækka núverandi skuldir og þar með til lækkunar á vaxtagjöldum. Hér er því haldið fram að vaxtasparnaður muni nema hærri fjárhæð en hækkun fyrninga.

Þriðja meginákvæðið varðar síðan það sem var meginmarkmið endurskoðunarinnar, þ.e. ákvæðin um lágmarksskatt ÍSALs. Eins og fram hefur komið í máli flm. veldur það miklum vonbrigðum að þau verða óbreytt. Framleiðslugjaldið er enn ákveðið 20 dollarar á tonn af framleiddu áli. Síðan er gerð breyting á því framleiðslugjaldi sem er umfram lágmarksgjald þannig að árleg fjárhæð þess fari eftir nettóhagnaði á skalanum 35- 55%. Að því er þessi ákvæði varðar sýnist mér mikilvægust ákvæðin um skuldajöfnun framleiðslugjalds við skattinneign ÍSALs frá fyrri árum. Það verður ekki notað til skuldajafnaðar nema að helmingi til af því framleiðslugjaldi sem er umfram 20 bandaríkjadali á tonn. En áður bar að nota alla viðbótarfjárhæðina í þessu skyni, sem þýðir þá að helmingur viðbótargjaldsins, ef eitthvert verður, kemur þá til útborgunar.

Að því er varðar þessi ákvæði er þó það að athuga að þótt lágmarksgjaldið breytist ekki og skattstiginn verði áfram á þessum skala, 3-55% hagnaðar, er það svo að fyrirtækið hefur ekki heimild til þess að færa tap á milli ára, eins og önnur fyrirtæki hér á landi, sem gæti orðið verulega til bóta. Því er haldið fram að niðurstaðan af þessari breytingu á skattstiga sé sú að tekjur af framleiðslugjaldi geti ekki lækkað. En ef afkoma fyrirtækisins batnar með ábata í áliðnaði, þá verði tekjur af framleiðslugjaldinu hærri en verið hefði.

Þetta skilst mér vera meginatriðin til þess að meta árangur samningsins. Með fyrirvara um nánari skoðun málsins í nefnd sýnist mér niðurstöðurnar vera þessar: Það er megingalli á þessum samningi að fastagjaldið skuli ekki hafa fengist hækkað, þessir 20 dalir á tonn, einfaldlega vegna þess að þetta ákvæði er berskjaldað fyrir öllum sviptivindum alþjóðlegrar verðbólgu og gengissveiflum. Það hefði þess vegna verið meginatriði að fá það annars vegar hækkað eða varið fyrir slíkri verðmætisrýrnun með verðtryggingarákvæðum. Þetta þarf að kanna sérstaklega áður en menn taka endanlega afstöðu til samningsins, hversu veigamikil þau rök eru að ekki hafi fengist hækkun að því er þetta varðar. Þar kemur auðvitað til álita samanburður á þeim almennu reglum sem gilda í skattlagningu slíkra fyrirtækja á alþjóðlegum markaði og samanburður á því hversu hár þessi veltuskattur raunverulega er í samanburði við það sem tíðkast í öðrum löndum. Þetta tel ég vera megingalla samningsins og hefði eindregið og auðvitað óskað eftir því að sjá hér betri árangur.

Hitt sýnist mér hins vegar ljóst að margt í þessum samningi að öðru leyti horfir til bóta, bæði viðmiðunarreglur og endurskoðunarákvæði. Ég tel mikilvægt að ÍSAL getur ekki flutt tap milli ára við skattlagningu, þannig að í góðum árum komi hagnaður betur til skattlagningar. Ég tel að fyrningarreglubreytingar séu til bóta og eins aðlögun að almennum skattareglum hér á landi. Þá er það mitt mat að endurmatsreikningur útiloki að hægt sé að gjaldfæra gengistap af lánum. En þar á móti fær fyrirtækið að endurmeta fastafjármuni. Ákvæðin í heild eru þannig til hagsbóta fyrir ríkið.

Eiginfjáraukning fyrirtækisins þýðir minni vaxtafrádrátt á næstunni. Í heild sýnist mér að þessi ákvæði endurskoðunarinnar hafi verið til bóta. En ég áskil mér rétt til þess að bíða með endanlega afstöðu til þess sem meginmáli skiptir, þ.e. hvort ekki hefði verið unnt undir eðlilegum kringumstæðum að ná meiri árangri, að því er varðar fastagjaldið, þangað til málið hefur fengið rækilega umfjöllun í iðnn.