28.11.1985
Sameinað þing: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

17. mál, fylkisstjórnir

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það væri sjálfsagt hægt að nefna nokkra tugi ástæðna fyrir því að þetta málefni, sem hér er til umræðu, væri þarft málefni og mjög brýnt að vinda sér í að koma því í kring. Það nægir kannske að benda á að það stjórnkerfi, sem við búum við í dag, hefur greinilega sín takmörk ef við horfum á þann árangur sem það skilar. Ekki er hægt að halda því fram af neinni sanngirni að það skili nægilega góðum árangri fyrir alla landsmenn. Hægt er að benda á að mjög margir landsmanna eru nú þegar komnir á þá skoðun að það færi betur á því að þeir hefðu sjálfir meira um sín málefni að segja, að þeir réðu einfaldlega meiru í sínum eigin málefnum. Það væri snöggtum happadrýgra en að viðhalda því fyrirkomulagi sem við búum við í dag.

Þessi ósigur okkar stjórnkerfis er ekkert séríslenskt fyrirbæri, hann á sér hliðstæður í mörgum nágrannalanda okkar. Ef litið er til þessarar aldar, sem við nú lifum á, aldar lýðræðisins og aldar stjórnmálamannanna - því að aldrei hafa stjórnmálamenn verið fleiri en á þessari öld síðan sögur hófust - þá er það mjög áberandi í samkeppni hagkerfanna að því miðstýrðari sem hagkerfin eru því verr gengur þeim að uppfylla óskir þegna sinna. Þannig hljóðar nánast slagorð eða mottó dagsins í dag: „Frá miðstýringu til valddreifingar.“ Þessi hugmynd um þriðja stjórnsýslustigið er eitt af þeim skrefum sem þarf að stíga til aukinnar valddreifingar.

Menn geta líka bara horft á það ástand sem við búum við í dag. Við höfum örlítinn vísi að þriðja stjórnsýslustiginu milli landsstjórnar og sveitarstjórna, þ.e. sýslunefndirnar sem, eins og hér hefur verið getið, eru mjög óburðugt stjórnsýslustig og lítils megnugt. Til að friða menn, til þess hreint og beint að láta þá fá það á tilfinninguna að þeir hafi eitthvað um eigin málefni að segja, hefur á undanförnum áratugum verið byggt upp hér valdalaust kerfi samtaka sveitarfélaga og landshluta. Þessi samtök kosta okkur landsmenn þó nokkuð mikið. Þeir sem þátt taka í þeim líta þannig á málið að þessi landshlutasamtök geri raunverulega gagn. En það er mjög áberandi að þessi landshlutasamtök hafa ekkert vald. Tilvist landshlutasamtakanna sannar okkur engu að síður að það er ekki bara nauðsynlegt að hafa samráð við menn um það hvernig málum þeirra er stjórnað heldur enn þá nauðsynlegra að menn fái að taka þær ákvarðanir, sem þá sjálfa snerta, hver fyrir sig.

Það hafa líka verið gerðar tilraunir hér, sérstaklega á vegum samtaka sveitarfélaga, til að færa sig nær þessu millistigi stjórnsýslu með því einu að sameina sveitarfélögin. Sú tilraun hefur strandað einfaldlega á því að menn eru ekkert áfjáðir í að gefa upp sitt sjálfstæði. Jafnvel þó að hægt sé að færa sönnur á að einhver ákveðin hagkvæmni fylgi slíku meta menn þetta sjálfstæði sitt svo mikils að þeir eru ekki reiðubúnir til að láta það af hendi, ekkert frekar en við erum reiðubúin til að safnast saman í stórar fjölskyldur og kokka öll í einu eldhúsi þó að sannanlega sé hægt að sýna fram á að því fylgi mjög mikil hagkvæmni.

Það frv. til laga um sveitarstjórnir, sem nú liggur fyrir, gerir mjög máttlausa tilraun til að svara að einhverju leyti þeirri kröfu, sem er orðin mjög hávær út um allt land, um þriðja stjórnsýslustigið. Þessi hugmynd er máttlaus sérstaklega vegna þess að þriðja stjórnsýslustigið verður aldrei fugl eða fiskur fyrr en að lýðræðislega er kjörið til þess. Þannig gefa íbúarnir þessu stjórnsýslustigi vald sitt, framselja þessu stjórnsýslustigi vald sitt. Þar af leiðandi er hægt að krefjast þess að taka verkefni frá ríkinu og að hluta til kannske af sveitarfélögum að svo miklu leyti sem þau eru samþykk og sinna þeim á þessu stjórnsýslustigi.

Í raun og veru erum við að tala um að koma hér á nútímalegu stjórnkerfi, stjórnkerfi sem svarar þörfum og kröfum þegnanna hraðar en það miðstýrða stjórnkerfi gerir sem við búum við í dag. Það er kannske einföld samlíking en í raun og veru er álíka vitlaust að vera að keyra á jafngömlu stjórnkerfi og við gerum hér í dag eins og það ef einhver maður ætlaði sér að fara út á göturnar í dag með bíl frá 1937. Hann fengi aldrei skráningu einfaldlega vegna þess að hann uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til bifreiða á götunum í dag.

Hv. 5. þm. Vestf. minntist hér á eitt atriði sem ég tel reyndar að sé algert kjarnaatriði í þessu máli, þ.e. nauðsyn þess að koma hér upp frjálsri gjaldeyrisverslun, að menn séu ekki bundnir af skráningu stjórnvalda þegar gjaldeyrir er verðlagður. Þetta þýðir einfaldlega að ef maður ætlar að kaupa gjaldeyri verður hann að kaupa hann því verði sem það kostaði að skaffa þennan gjaldeyri. Í þessu fælist gífurleg aukning á styrkleika landsbyggðarinnar þar sem menn fengju þá raunverulega þau verðmæti í hendurnar sem þeir eru að skapa.

Ég var rétt áðan að lesa smáfréttaklausu sem sýnir manni hvernig Íslendingar geta lifað á þessu landi þegar þeir fá það fyrir fiskinn sinn sem hann raunverulega kostar. Útgerðarfélag fyrir norðan tekur sig til og býður 60 starfsmönnum til ferðar til London í heila viku. Þetta er fyrirtæki sem ber sig greinilega mjög vel einfaldlega vegna þess að það selur afurðir sínar á alvörumarkaði. Með því að nota aðrar leiðir hefur því tekist að komast fram hjá því miðstýrða kerfi í verðlagningu og sölu sjávarafurða sem við búum við í dag með þeim afleiðingum sem við þekkjum út um allt land.

Þetta eru örfá atriði, herra forseti, sem menn skyldu hugleiða þegar frekar verður fjallað um þetta mál. Ég er sammála hv. 5. þm. Vestf. um það að sem flest af verkefnum sveitarfélaga skyldu haldast þar. En við vitum líka báðir af þekkingu okkar á málefnum sveitarfélaga að það eru mörg verkefni sem sveitarfélög mundu leggja í hendurnar á þriðja stjórnsýslustiginu sem þau eru ekki reiðubúin að afhenda nágrannasveitarfélagi sínu. Í þessari hugmynd er líka þannig um annan anda stjórnskipunar að ræða en þann sem mönnum hefur staðið til boða í dag.

Hér hefur starfað nefnd að verkefni sem ríkisstj. föl henni eftir myndun hennar 1983. Þetta verkefni tengist þeirri stjórnarskrárbreytingu sem Íslendingar kusu um 1983. Ég minni á það að gefnu tilefni að ég held að þeir Íslendingar, sem vissu að þeir voru að kjósa um stjórnarskrárbreytingu, hafi verið afskaplega fáir. Ég tek þar með líka undir þá skoðun að þetta er ekki hin rétta leið til að koma stjórnarskrárbreytingum í gegn. Stjórnarskrárbreytingar eiga að gerast sjaldan og vera þá að einhverju marki þegar um þær er að ræða. Þessi nefnd hefur fjallað um aukna valddreifingu og þar hafa verið ræddar og viðraðar hugmyndir um héraðs- eða fylkjastjórnir. Þar hefur verið safnað þó nokkru af upplýsingum og tel ég sjálfsagt að sú nefnd, sem um þetta mál mun fjalla, geti leitað í gagnabanka þeirrar nefndar ef með þarf.

Þá erum við komnir að stjórnarskrárnefndinni. Auðvitað verður það endanlega hennar hlutverk að fjalla um tillögugerðir í þessu máli ef það næði fram að ganga. Ég hef einhvern veginn séð það fyrir mér þannig að fram undan, eftir 15 eða 16 ár eftir því hvernig menn vilja reikna það, er árið 2000. Ég held að það væri allsendis óvitlaust - og þá jafnvel að gera það í formi þáltill. - að setja sér verkefnaskrá til aldamóta. Takmarkið yrði það að gefa Íslendingum nýja stjórnarskrá aldamótaárið 2000. Þá væri búið á þessum eina og hálfa áratug að taka fyrir stjórnarskrána, þ.e. þá kafla hennar sem menn telja brýnt að taka upp. Þá er ég ekki bara að tala um þann kafla sem lýtur að dreifingu valdsins. Mjög margir telja að stjórnarskrá okkar sé mjög ábótavant í mörgum öðrum atriðum, hún sé afskaplega lélegur grunnur t.d. fyrir dómsvald, hún hafi mjög fátækleg mannréttindaákvæði án þess að ég sé þar með að halda því fram að þau þurfi að vera mörg eða stór en þau þurfa að vera þess afdráttarlausari.

Herra forseti. Þar sem stjórnarskrármálin hafa verið hér til umræðu samtímis því að við ræddum um þetta þriðja stjórnsýslustig vildi ég einungis viðra þá hugmynd hvort menn hefðu yfirleitt hér í þessum sal áhuga á því að taka sér tak með því markmiði, eins og ég sagði, að afhenda þjóð vorri eftir einn og hálfan áratug - það er sæmilega góður vinnutími - nýja stjórnarskrá í tilefni aldamóta.