02.12.1985
Efri deild: 20. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

117. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka þeim þm. sem tekið hafa til máls við þessa umræðu fyrir ábendingar þeirra og málefnalegar umræður.

Það kom fram í upphafi hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, sem því miður er ekki staddur í salnum, að Alþýðubandalagsmenn og Alþýðuflokksmenn hefðu ekki borið gæfu til að standa saman um flutning mála af þessu tagi, enda mátti helst skilja á honum að við Alþýðubandalagsmenn hefðum verið með óeðlilegar, ótímabærar og lítilfjörlegar athugasemdir við málflutning þeirra á þessu sviði og af einhverjum einkennilegum ástæðum hefði okkur ekki litist vel á tillögur Alþfl.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um ágreining Alþfl. og Alþb. á þessu sviði. Hann hefur verið fyrir hendi, en er kannske minni nú en áður var. Þegar þetta mál var flutt á sinni tíð, ég hygg að það hafi verið á þinginu 1976 í fyrsta sinn, hafði þáv. þm. Bragi Sigurjónsson flutt frv. um eignarhald á landi. Í þessu fyrsta frv. sem Alþfl. flutti um þetta mál var gert ráð fyrir að ríkið yrði eigandi allra jarða í landinu. Það var að vísu ekki gert ráð fyrir að ríkið tæki jarðirnar þannig af bændum að þeir fengju ekki að nytja þær, en það var gert ráð fyrir því að ríkið yrði eigandi allra jarða. Ég hygg að tillaga okkar á sínum tíma hafi kannske verið komin fram ekki síst til þess að gera alveg ljóst hver væri stefna okkar Alþýðubandalagsmanna í þessu máli. Hún er ekki og hefur aldrei verið sú að ríkið eigi að eignast allar jarðir í landinu. Við vildum einmitt hafa alveg á hreinu að við fylgdum ekki þeirri stefnu Alþfl. að þjóðnýta allt land því að það teljum við alls ekki vera æskilegt viðfangsefni ríkisins, a.m.k. ekki eins og mál standa og hafa staðið. Það er ekkert sem rekur okkur til að standa í slíku. Þvert á móti hyggjum við að fjármunum ríkisins væri miklu betur varið til ýmissa nýtilegra hluta annarra en að kaupa upp jarðir í landinu. Við töldum þetta óskynsamlegar tillögur, gagnrýndum þær verulega, en vegna þess að stefna okkar er eftir sem áður allt önnur en Sjálfstfl. og Framsfl. í þessu máli töldum við nauðsynlegt að gera sem skýrasta grein fyrir henni og því var þetta stjórnarskrárfrv. flutt í fyrsta sinn.

Hv. þm. Eiður Guðnason taldi að það væri kannske eðlilegra að flytja lagafrv. og fá þau í gegnum þingið áður en farið væri að hreyfa við stjórnarskránni. En ástæðan fyrir því upphaflega að við kusum að flytja þetta stjórnarskrárfrv. og gerum það enn er sú að því hefur verið haldið fram að í þessum aðgerðum gæti falist eignarnám, þ.e. það væri hugsanlegt að verið væri að taka af mönnum eitthvað það sem þeir teldu sig hafa átt. Því teljum við nauðsynlegt og eðlilegt að skipa þessum málum í stjórnarskrá og að þjóðin taki sér þennan rétt í heild á þeim málefnalega grundvelli að hún hafi átt þennan rétt nokkurn veginn allan og Alþingi marki stefnuna í þágu þjóðarinnar með breytingu á stjórnarskránni.

Það er að vísu alveg rétt, sem kom fram hjá hv. seinasta ræðumanni, að hægt er að halda því fram að verið sé að svipta bændur einhverjum rétti með samþykkt þessa stjórnarskrárfrv. T.d. er ljóst að það er umdeilt hversu langt jarðhiti nær niður í jörðina. Það má hugsa sér að bændur haldi því fram að þeir eigi jarðhita fyrir neðan 100 m dýpi. Sé svo telja þeir vafalaust að það sé verið að taka af sér ákveðinn rétt með því að ákveðið sé að þjóðin eigi rétt fyrir neðan 100 m dýpi.

Nákvæmlega það sama gildir um orku í rennandi vatni. Þetta er umdeilt. Réttur til orku í rennandi vatni er umdeildur. En áreiðanlega eru þeir menn til sem telja sig eiga meiri rétt en þann sem í þessu frv. felst.

Það atriði sem hins vegar er kannske einna mest takmarkandi eru námurnar í jörðu. Þar er um að ræða augljósa og skýra breytingu á eignarrétti miðað við það sem er í gildandi lögum.

Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson hélt því fram að frv. sem hér er flutt væri með öðrum hætti en tillögur sem ég og meðnm. minn í stjórnarskrárnefnd, Ólafur Ragnar Grímsson, höfum flutt í nefndinni og gerð hefur verið grein fyrir hér á Alþingi og í plöggum frá stjórnarskrárnefnd. Þetta er hins vegar misskilningur. Þetta er nákvæmlega sama tillagan. Hún er nokkurn veginn alveg eins orðuð, eins og reyndar kom fram hjá hv. þm. Munurinn felst m.a. í því að stjórnarskrárnefnd í heild tekur þarna upp eina setningu sem var í okkar stjórnarskrárfrv., þ.e. um það að landsmönnum sé öllum tryggður réttur til eðlilegrar umgengni og útivistar í landinu. Eftir að búið er að taka þá tillögu inn í sameiginlegu tillöguna fellur hún auðvitað út í tillögum okkar Alþýðubandalagsmanna.

Annar munur sem er á tillögunum er sá að í tillögunum frá stjórnarskrárnefndinni er bara talað um eignarrétt á jörðum, að eignarréttur á jörðum haldist, en í þessari tillögu talað um að bændur haldi eignarrétti á jörðum sínum. Þetta er auðvitað bita munur en ekki fjár, orðalag sem engu breytir. Ég hygg að það sé rétt athugað hjá hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni að orðalagið sé betra í tillögunum sem við lögðum fram í stjórnarskrárnefndinni. Ástæðan fyrir því að við höldum ekki því orðalagi í þessari tillögu er ósköp einfaldlega sú að við erum að flytja óbreytta tillögu sem við fluttum fyrir nokkrum árum. En efnismunur er enginn þannig að þetta skiptir ekki neinu máli.

Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson lagði áherslu á, og það kom reyndar fram hjá hv. seinasta ræðumanni, Haraldi Ólafssyni, að hugtök í frv. væru óljós og þyrftu nánari skilgreiningar við. Ég bendi hv. þm. á það, þó að ég vilji ekki kasta neinni rýrð á ábendingu þeirra, að í stjórnarskrá landsins er alltaf töluvert af hugtökum sem eru ekki fullkomlega skýr og ljós ein sér. Þau eru ekki skýrð í stjórnarskrá. Þau eru þar. Síðan er það löggjafans að túlka þau og setja lög á grundvelli stjórnarskrárinnar og dómstólanna, ef ágreiningur kemur upp, að dæma um hvort hugsanlegt er að orðalag laga brjóti í bága við þau hugtök sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Þetta stafar af þeirri einföldu ástæðu að stjórnarskráin inniheldur meginatriði og gefur sér ekki tóm til að skilgreina eða útskýra einstök hugtök.

Ég nefni hugtak eins og „fjárreiður ríkisins“ sem kemur fyrir í stjórnarskránni. Er ekki alveg ljóst að þar er um nokkuð teygjanlegt hugtak að ræða, hugtak sem verður að skilgreina í lögum? Eða hugtakið „náttúra landsins“ sem kemur fyrir í tillögum stjórnarskrárnefndarinnar. Það er svo sannarlega mjög teygjanlegt hugtak og ekki fullkomlega ljóst hvar markalínur liggja þar. En þannig verður þetta að vera í plaggi sem ekki er ætlast til að sé mjög smáatriðakennt.

Ég tek enn eitt dæmi. Það segir í stjórnarskránni og hefur staðið þar frá 1974: „Heimilið er friðheilagt.“ En hvað er heimili? Ekki fer stjórnarskráin út í að útskýra það. Er það bílskúrinn? Er það heimilið? Er það litla kjallaraherbergið þar sem eintómt drasl er geymt? Er það sorptunnugeymslan? Er það garðurinn fyrir utan hjá mönnum? Auðvitað getur stjórnarskrárgjafinn ekki farið í að útskýra þetta í smáatriðum. Það er löggjafans og dómstólanna að skýrgreina hugtök af þessu tagi.

Eða hugtakið „vopnlaus“. Menn eiga rétt til þess að koma saman vopnlausir. Hvað er að vera vopnlaus? Er maður vopnlaus ef hann er með vasahníf í vasanum o.s.frv.?

Þetta eru allt hugtök sem eru þess eðlis, og af þeim úir og grúir í stjórnarskránni, að löggjafinn verður að skilgreina þau betur. Þess vegna segir einmitt í þessari till.:

„Eignarrétti á íslenskum náttúruauðæfum, landi og landgrunni skal að öðru leyti skipað með lögum.“

Þá er sem sagt ekki átt við það að önnur atriði en þau sem nefnd eru í tillgr. skuli háð lagasetningu, heldur einnig að um þessi atriði öll skuli sett lög í samræmi við þá stefnumörkun sem í tillgr. felst.

Virðulegi forseti. Ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem hér hafa komið með nokkrar ábendingar. Ég tel að þær beri þess vott að menn eru reiðubúnir að ræða málið frekar, viðurkenna að hér er um stórmál að ræða, viðurkenna að á þessu sviði er mikil réttaróvissa, að það ber brýna nauðsyn til að koma þessum málum betur á hreint en gert hefur verið. Ég fagna því að í ummælum manna, sem um málið hafa rætt, kemur fram að menn skilja nauðsyn þess að þessi mál séu tekin föstum tökum. Því vona ég sannarlega að málið verði nánar rætt í þingnefndinni sem málið fær til meðferðar. Ég hef þegar lagt til, forseti, að málinu verði vísað til allshn.