03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

137. mál, úrsögn Íslands úr alþjóðahvalveiðiráðinu

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef fylgst nokkuð náið með störfum Alþjóðahvalveiðiráðsins og hef ýmislegt við starfsemi þeirrar stofnunar að athuga. Hins vegar kom fram á síðasta ársfundi verulegur vilji til að breyta starfi þeirrar alþjóðastofnunar, m.a. með tilliti til þess að ýmsir sjá fram á það að ef menn misbeita svo valdi sínu innan þeirrar stofnunar geti hún hrunið. Ég tel rétt að láta á það reyna hvort ekki muni takast að bæta starfsemi stofnunarinnar. Væntanlega mun það koma í ljós á fundinum á næsta ári eins og ég gat um áður.

Varðandi það starf sem ýmis friðunarsamtök hafa haft í frammi að undanförnu er það að segja að um nokkra stefnubreytingu er að ræða. Ég vek athygli á að nýlega var fellt hjá samtökunum Greenpeace að beita sér af fullri hörku gegn loðskinnaframleiðslu, sem áformað hafði verið, með þeim afleiðingum að nokkrir forustumenn þar sögðu af sér. Þar er vaxandi tilhneiging til að beita sér nær eingöngu að baráttunni gegn kjarnorkuvá. Vænti ég þess að þau samtök muni ná saman um það. Ef svo er býst ég við að flestir Íslendingar muni geta gengið í þau.