03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

Umferðamál

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það var aðeins þrennt sem ég vildi nefna. Í fyrsta lagi vildi ég skýra frá því að gerð hefur verið ráðstöfun til þess að láta gera könnun á orsökum þessum. Við það verkefni verður haft samráð við fræðsluyfirvöld þannig að unnt sé að ná sambandi við alla sem gefið gætu upplýsingar í því sambandi.

Enn fremur vil ég skýra frá því að ég hef hugsað mér, eftir að ég hef fyrir nokkru rætt við landlækni um þessi mál, að fara þess á leit við dómsmrh. að hann flytji frv. til breytinga á umferðarlögum sem geri ráð fyrir því að notkun plasthjálma við hjólreiðar verði lögleidd. Ég get ekki séð annað en að það liggi í augum uppi að slíkt eigum við að gera.

Ég vil einnig beita mér fyrir því að þessi skýrsla verði send öllum hv. þm. Ég hef sjálf satt að segja ekki fengið þessa stærri skýrslu í hendur fyrr en nú alveg nýlega. Hún mun hafa verið komin til ráðuneytisins áður en ég kom til starfa sem ráðherra, en ekki komið á mitt borð. Hins vegar hef ég rætt þessi mál á nokkrum fundum með landlækni og aðstoðarlandlækni og hvað til úrbóta sé vegna þeirrar hættu sem þarna er á ferðinni. Það segir sig sjálft hve geysilegur sparnaður það yrði í heilbrigðiskerfinu, ef við megum nefna það atriði líka, að koma þarna vörnum við.