22.10.1985
Sameinað þing: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Á síðasta löggjafarþingi fluttum við hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, Stefán Benediktsson, Haraldur Ólafsson, Svavar Gestsson og Skúli Alexandersson svohljóðandi till. til þál., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að á árinu 1985 leggi íslenska ríkið fram tíu milljónir króna til listskreytingar Hallgrímskirkju í Reykjavík og síðan skv. fjárlögum hverju sinni með hliðsjón af verkáætlun til tíu ára.“

Síðan var tillaga um hvernig nefndin skyldi skipuð. Tillögu þessari var vísað til hv. fjvn. þar sem þarna var farið fram á ákveðna upphæð á því fjárhagsári eða öllu heldur næsta fjárhagsári, en málið sýnist ekki hafa fengið neina afgreiðslu þar. Sömu þingmenn hafa því ákveðið að flytja þessa till. aftur á þessu yfirstandandi löggjafarþingi en í dálítið breyttu formi.

Till. hljóðar nú svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á kirkjumrh. að skipa nú þegar sjö manna nefnd til að skipuleggja og undirbúa skreytingu og frágang á anddyri, kór og kirkjuskipi Hallgrímskirkju í Reykjavík. Nefndin skal skipuð sem hér segir: Kirkjumrh. skipi einn mann, og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar, menntmrh., biskup Íslands, húsameistari ríkisins, byggingarnefnd Hallgrímskirkju, Félag íslenskra myndlistarmanna og kirkjulistarnefnd tilnefni einn mann hver í nefndina.

Verkefni nefndarinnar skal vera að gera verkáætlun og áætlun um þann tíma sem talið er að verkið taki, svo og kostnaðaráætlun. Alþingi lýsir vilja sínum til að leggja fram fé á fjárlögum þeirra ára sem verkið yrði unnið og bera kostnað af störfum nefndarinnar.“

Með tillögunni fylgdi á síðasta löggjafarþingi ítarleg grg. þar sem rakin var byggingarsaga kirkjunnar og þær menningarlegu ástæður sem flutningsmenn telja vera fyrir flutningi tillögunnar. Ég skal ekki tefja tíma hv. Sþ. með því að endurtaka það, enda er sú grg. endurprentuð með till. nú.

En þess verður að geta að byggingarsaga Hallgrímskirkju er orðin æði löng eða rúm 40 ár.

Þegar litið er á þetta mikla mannvirki er næsta ótrúlegt að það skuli hafa verið byggt að mestu fyrir frjáls framlög velunnara kirkjunnar og dugnað safnaðarins. Til þessa dags hafa verið lagðar til kirkjubyggingarinnar u.þ.b. 14 millj. íslenskra króna. Á þeim fjárlögum sem nú hafa verið lögð fram eru 8 millj., en þess skal getið að hæstv. fyrrv. fjmrh. lagði kirkjunni til aukafjárveitingu sem nam 5 millj. króna á þessu ári. Það er fyrst nú á allra síðustu árum sem íslenska ríkið hefur komið nálægt þessari kirkjubyggingu. Söfnuðurinn og velunnarar kirkjunnar hafa borið af henni hitann og þungann alla tíð.

Hér teljum við flm. að saman fari minningin um Hallgrím Pétursson og minning eins merkasta húsameistara og hins fyrsta íslenskra húsameistara sem markað hafa spor í menningarsögu þjóðarinnar, en sá maður var Guðjón Samúelsson. Hann lauk námi árið 1919 og var ári síðar skipaður húsameistari ríkisins. Því starfi gegndi hann síðan til dauðadags árið 1950. Menn geta kynnst list hans hvar sem þeir líta hér í borg. Má þar nefna Þjóðleikhúsið, Háskóla Íslands, Landspítalann, Sundhöll Reykjavíkur og síðast en ekki síst Hallgrímskirkju í Reykjavík. Um skuld íslensku þjóðarinnar við Hallgrím Pétursson er óþarft að ræða frekar en gert hefur verið í grg. sem fylgir till. og það mun því látið vera hér. En ég vil leyfa mér að lesa hluta bréfs sem biskup Íslands skrifaði mér á s.l. ári. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ég vil ekki láta hjá líða að tjá yður þakkir mínar fyrir þann áhuga sem þér sýnið með forgöngu yðar á Alþingi um málefni Hallgrímskirkju og í ræðu og riti í fjölmiðlum þessa daga. Sá skilningur sem Hallgrímskirkja á Skólavörðuhæð fær að njóta hjá yður og þeim sem flytja frv. með yður á Alþingi gefur lokaátaki við byggingu Hallgrímskirkju byr undir báða vængi. Ég tel að sú komi tíð að þessi helgidómur verði það þjóðartákn og sómi Íslendinga sem komandi kynslóðir verði í hvað mestri þakkarskuld við um ókomnar aldir.“

Flm. er ljóst að listskreyting Hallgrímskirkju er mikið verk sem óhjákvæmilega tekur langan tíma og krefst vinnu fjölmenns hóps listamanna. Nýverið hefur byggingaráætlun kirkjunnar verið tekin upp og hún stendur óbreytt, og talið er að byggingu verði lokið á árinu 1986. Þetta umfangsmikla verk þarfnast góðs og skipulegs undirbúnings og því er brýnt að hann geti hafist sem fyrst. Án efa er nauðsynlegt að þarna taki höndum saman listamenn þjóðarinnar um vinnubrögð, um hvort efna skuli til samkeppni e.t.v. og allt það er lýtur að heildarskipulagi skreytingarinnar.

Ég vil minna hv. Alþingi á að stórhugur í menningarmálum virðist vera ærið minni nú í velferðarþjóðfélagi okkar daga en hér fyrr á öldinni þegar Hannes ráðherra Hafstein beitti sér fyrir því að Landsbókasafn var byggt á tveimur árum, og rétt í byrjun kreppunnar, á kreppuárunum og árunum þar á eftir var lokið við að byggja Þjóðleikhús Íslendinga. Nú telja menn ekki eftir sér að leggja á næsta fjárhagsári 300 milljónir í flugstöð á Keflavíkurflugvelli, en nokkrar milljónir í skipulagt átak til þess að ljúka þessu mikla mannvirki í minningu sr. Hallgríms Péturssonar vex hv. Alþingi greinilega í augum.

Herra forseti. Kirkjuþing hefst í dag. Kirkjuþing verður haldið nú dagana 22.-31. okt. n.k. Að þessu sinni verður þingið sett á Þingvöllum og er það í tilefni þess að kirkjan er að hefja undirbúning að því að minnast þúsund ára afmælis kristnitöku á Íslandi, en það verður haldið hátíðlegt á Þingvöllum árið 2000. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir Alþingi Íslendinga að sjá svo til að árið 2000 verði Hallgrímskirkja í Reykjavík fullbyggð og fullskreytt.

Herra forseti. Ég minntist á það fyrr í máli mínu að flm. hefðu vísað máli þessu til hv. fjvn. Hv. fjvn. er með öllu rúin trausti á áhuga á þessu máli enda ekki ástæða til né nauðsyn að vísa málinu þangað nú, þar sem ekki er farið fram á beina fjárveitingu. Ég vil því leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. menntmn. (Gripið fram í: Hún er ekki til.) (Forseti: Það er félmn. sem er nú orðin.) Ég bið afsökunar, herra forseti, ég ætlaði að segja allshn. Nú kann svo að vera að með hinni nýju félmn. heyri málið frekast til þar. Ég fagna því þar sem ég á þar sæti sjálf og tek því með þökkum ef málinu verður vísað þangað.